Hefur þú heyrt um 80/20 regluna? Í stuttu máli segir hún að á mörgum sviðum leiði 20% af heild til 80% af tiltekinni útkomu. Til dæmis gæti verið að 20% viðskiptavina fyrirtækis afli því 80% af heildartekjum þess eða að 20% nemenda í skóla standi fyrir 80% af öllum hegðunarvandamálum. Reglan þekkist einnig sem lögmál hinna mikilvægu fáu. Er þá verið að vísa til þess að lítið brot af heild getur haft mikil áhrif á útkomu, hlutfallið gæti þó allt eins verið 60/15 eða 40/10.

Þetta grófa viðmið má nota sem verkfæri til að framkvæma svokallaða ABC greiningu. Sem dæmi má segja að A hópur sé 20% af heild sem stendur fyrir 80% af útkomu, B væri 60% af heild sem stendur fyrir 15% af útkomu og C væri 20% af heild sem stendur fyrir 5% af útkomu. Augljóslega ætti fyrirtæki eða stofnun að leggja mesta áherslu á flokk A, sem er ábyrgur fyrir stærstum hluta af afkomu þess.

Gerum eins konar ABC greiningu á útgjöldum íslenskra heimila. Hverjir eru hinir mikilvægu fáu í neysluvenjum Íslendinga?

Hjá Hagstofu Íslands má nálgast rannsókn á útgjöldum íslenskra heimila frá 2013 til 2016. Hún er aðgengileg HÉR. 1.678 heimili tóku þátt í rannsókninni. Eftirfarandi neysluflokkar voru skoðaðir og má sjá hvað þeir stóðu fyrir stórum hluta af heildarútgjöldum. Ég hef raðað þeim eftir hlutfalli frá mesta til minnsta:

 1. Reiknuð húsaleiga 18,0%
 2. Rekstur ökutækja 7,0%
 3. Veitingar 5,2%
 4. Kaup ökutækja 4,9%
 5. Íþróttir, fjölmiðlun og happdrætti 4,3%
 6. Rafmagn og hiti 4,0%
 7. Greidd húsaleiga 3,5%
 8. Föt 3,2%
 9. Póstur og sími 3,2%
 10. Viðhald og viðgerðir á húsnæði 2,9%
 11. Flutningar 2,7%
 12. Kjöt 2,6%
 13. Heilbrigðisþjónusta 2,6%
 14. Pakkaferðir 2,6%
 15. Snyrting, hreinlætis- og snyrtivörur 2,4%
 16. Mjólk, ostar og egg 2,4%
 17. Brauð og kornvörur 2,1%
 18. Annað vegna húsnæðis 1,8%
 19. Áfengi 1,7%
 20. Lyf og lækningavörur 1,7%
 21. Tómstundavörur, leikföng o.fl. 1,6%
 22. Húsgögn og heimilisbúnaður 1,5%
 23. Sykur, súkkulaði, sælgæti o.fl. 1,4%
 24. Tryggingar 1,3%
 25. Drykkjarvörur 1,2%
 26. Blöð, bækur og ritföng 1,1%
 27. Grænmeti, kartöflur o.fl. 1,1%
 28. Raftæki 1,1%
 29. Ávextir 0,9%
 30. Tóbak 0,9%
 31. Gosdrykkir, safar og vatn 0,9%
 32. Ýmsar vörur og heimilisþjónusta 0,9%
 33. Sjónvörp, myndbönd, tölvur o.fl. 0,9%
 34. Félagsleg þjónusta 0,9%
 35. Menntun 0,8%
 36. Aðrar matvörur 0,7%
 37. Tómstundir, stærri tæki o.fl. 0,7%
 38. Skór 0,7%
 39. Fiskur 0,6%
 40. Önnur þjónusta ót. a.s. 0,6%
 41. Borðbún., glös, eldhús- og heimilisáhöld 0,5%
 42. Fjármálaþjónusta ót. a.s. 0,5%
 43. Gisting 0,4%
 44. Olíur og feitmeti 0,3%
 45. Kaffi, te og kakó 0,3%
 46. Vefnaðarvörur til heimils 0,3%
 47. Skartgripir, úr o.fl. 0,3%
 48. Verkfæri o.fl. fyrir hús og garð 0,2%

Hinir mikilvægu fáu eru 5 fyrstu feitletruðu flokkarnir. Þessir 5 flokkar, sem eru aðeins 10% af 48 flokkum, eru ábyrgir fyrir 39,4% af heildarútgjöldum Íslendinga. Hvert prósent fyrstu 5 flokkana eru ábyrgt fyrir 4% af heildarútgjöldum og myndar því sambærilegt kraftahlutfall og 80/20 reglan segir til um, þar sem hvert prósent er einnig ábyrgt fyrir 4% af heild. Næstu 5 flokkar á eftir hinum mikilvægu fáu eru aðeins ábyrgir fyrir 16,8% af heildarútgjöldum.

Hinir mikilvægu fáu verða flokkur A sem við viljum skoða betur. Þetta eru stærstu götin sem hægt er að stoppa í. Með því að hagræða í aðeins fimm flokkum getum við náð betri stjórn á hátt upp í helming af útgjöldum okkar. Tíma okkar er því vel varið í að skoða þessa flokka betur.

Skoðum þá hvern lið fyrir sig. Ef þú ert með ábendingar um fleiri atriði sem má nota til að hagræða í hverjum flokki þætti mér mjög gaman að heyra hvað þú hefur að segja.

Reiknuð húsaleiga (18,0%)

Til útskýringar: ,,Reiknuð húsaleiga er áætlaður kostnaður við að búa í eigin húsnæði og til grundvallar á henni er þróun vaxta og markaðsvirði húsnæðis eins og þeir þættir endurspeglast í kaupsamningum (heimild).“

Það er auðvelt að verða húsblankur á Íslandi. Þú verður húsblankur þegar þú kaupir stærra hús en þú þarft. Ekki gera þetta! Stærri hús eru oftar með stærri lán hvílandi á þeim. Stærri húsum fylgja yfirleitt hærri fasteignagjöld. Og stærri hús þurfa yfirleitt meira viðhald, meira rafmagn og meiri hita. Kauptu húsið sem þú þarft. Þú þarft ekki yfir 150 fermetra hús nema þú notir ekki getnaðarvarnir af trúarlegum ástæðum.

Þegar þú hefur sparað milljónir á því að velja þér hús í réttri stærð reynir þú að gera samanburð á vaxtakjörum og fá eins hagstætt lán (ef þú þarft lán) og hægt er. Hjá Aurbjörg.is má meðal annars gera slíkan samanburð. Þessi heimavinna getur sparað þér margar milljónir til viðbótar.

Þegar þú kaupir húsið sem þú þarft á hagstæðustu vaxtakjörum sem þú finnur ertu með minni afborganir af láni og lægri fasteignagjöld.

Til viðbótar við þetta getur þú farið í stríð. Heiftarlegt og blóðugt stríð við lánið þitt. Þú getur borgað aukalega inn á lánið og lækkað þennan kostnaðarlið verulega. Þú getur gerst Tortímandi. Skottubani. Jötnabrjótur. Ég og konan mín erum næstum búin að þurrka þennan kostnaðarlið út og tilfinningin er æðisleg.

Rekstur ökutækja (7,0%)

Hér er gríðarlegt sparnaðartækifæri fyrir Íslendinga sem keyra allt of mikið. Fyrst er að ákveða hversu marga bíla þú þarft að eiga. Svarið er: Eins fáa og mögulegt er. Áður en ég og konan mín eignuðumst börnin okkar ákváðum við að kaupa ekki annan bíl þegar sá gamli gaf upp öndina. Við tókum strætó, hjóluðum eða gengum á milli staða. Við aðlöguðumst furðu fljótt. Ég tók strax eftir því hvað mikið fór að sparast: Ekkert bensín, viðgerðir, bílalán, smurþjónusta, skoðun eða tryggingar. Peningurinn safnaðist hratt upp eftir að bíllinn var farinn og það var stór þáttur í að eiga fyrir útborgun í okkar fyrstu fasteign.

Þegar við eignuðumst síðar börn ákváðum við að kaupa eins öruggan og sparneytin bíl og hægt var. Við keyptum okkur litla og sparneytna Hondu sem við eigum enn og rúmar auðveldlega tvo fullorðna og tvö börn ásamt farangri. Við gætum verið á tveimur bílum, það væri oft þægilegra, en þægindi kosta þig. Ég tek áfram strætó og geng í vinnuna á meðan konan mín keyrir í vinnuna og fer með krakkana í skóla.

Eigðu fáa og sparneytna bíla og notaðu þá eins lítið og mögulegt er.

Veitingar 5,2%

Dominos, KFC, Subway, kaffihús, lunch í hádeginu og fleira og fleira. Íslendingar eyða 5% af peningunum sínum í fljótan bita eða fínni veitingahús. Það er gaman og þægilegt að fara út að borða en það kostar líka. Hér er hægt að spara heilmikið með smá skipulagningu. Fyrst mætti ákveða að fara sjaldnar út að borða eða ákveða fyrirfram ákveðna upphæð sem má fara í veitingar. Einnig má taka nesti í vinnuna (sjá HÉR) og þegar vinnufélagar vilja fara út í hádegisverð er hægt að stinga upp á heimagerðum hádegismat, þar sem allir koma með eitthvað smá. Í stað þess að fara út að borða má einnig bjóða fólki oftar heim í mat, það getur verið persónulegra og mun skemmtilegra. Þegar tíminn er naumur getur verið gott ráð að eiga fljótlega rétti tilbúna í ískápnum eða frystinum sem má skella beint í ofninn í stað þess að fara í sveittan skyndibita. Það má líka gera kvöldmatarplan og skipuleggja innkaupin út frá því. Það getur dregið úr hinni endalausu spurningu: ,,Hvað eigum við að hafa í matinn í kvöld?“. Hugmyndaleysi hættir oft til að breytast í dýran skyndibita.

Ég eyddi einu sinni miklum pening í kaffi til að taka með. Kaffibollinn kostar venjulega 300-500 kr, svo það er fljótt að safnast upp. Til að draga úr þessari eyðslu bað ég um fjölnota kaffimál í jólagjöf, sem systir mín var svo góð að gefa mér. Núna helli ég upp á kaffi og tek með mér ef ég veit að ég er að keyra langt þann daginn.

Ódýrasti maturinn er heima hjá þér!

Kaup ökutækja 4,9%

Fyrir sumum er bíll meira en tæki til að komast lifandi frá A til B. Bíllinn þeirra er eitthvað meira. Hann er stöðutákn! En stöðutákn um hvað? Horfðu á þig í speglinum og spurðu sjálfan þig: ,,Hvað er ég að reyna að sanna með bílnum mínum?“ Svarið gæti komið þér á óvart.

Til að spara í kaupum á ökutækjum má hafa í huga að kaupa ekki glænýjan bíl. Nýjir bílar falla gríðarlega hratt í verði. Svo skaltu velta fyrir þér: Þarftu lúxus? Þarftu fjórhjóladrif? Þarftu allan aukabúnaðinn? Þarftu Benz, BMW, Audi, Land Rover og Lexus eða dugar lítil og nett Toyota eða Honda?

Það geta allir keypt sér lúxusbíl. Það geta allir fengið lúxusbíl á lánum. En virðing annarra er ekki keypt. Hún er áunnin með góðum verkum. Þú finnur hana ekki í 500 hestafla hægindastól. Meira um bíla HÉR,

Íþróttir, fjölmiðlun og happdrætti 4,3%

Hér eru allir dýru miðarnir, kortin og áskriftirnar. Leikhús, bíó, tónleikar, skemmtigarðar, íþróttaviðburðir, Stöð 2, Netflix, Spotify, Lottó, líkamsræktarkort, heilsuspa, golfklúbburinn og og og…

Er þér ekki skemmt? Neyslusamfélagið hefur breyst mikið með tilurð samfélagsmiðla. Upplifanir eru ákveðið stöðutákn og við búum í upplifunarsamfélagi. Mér þykir leitt að segja það en ef þú ert ekki enn búinn að stökkva yfir Stuðlagil á rakettuskautum hjá RocketJump Iceland ertu líklega bara mjög óáhugaverð og leiðinleg manneskja.

Sinnuleysi er hins vegar stærra vandamál en nýjasta tíska upplifunarsamfélagsins. Fólk gleymir ákrift hér og þar. Er með Stöð 2 en horfir varla á hana, er með líkamsræktarkort en hefur ekki kíkt í ræktina í margar vikur, fer með krakkana í bíó þegar öllum leiðist og það er ekkert annað að gera.

Er mögulegt að við deyjum ekki úr leiðindum eða óvinsældum ef við eyðum aðeins minni peningum í upplifanir? Þurfa upplifanir alltaf að kosta peninga? Hér eru nokkrar hugmyndir að ódýrari upplifunum:

 • Fara með börnin á leikvöll
 • Fara með börnin á bókasafn
 • Spila með fjölskyldu og vinum
 • Skoða fría viðburði á facebook
 • Fara saman út að ganga eða hjóla
 • Eiga sundkort og fara saman í sund
 • Lesa bækur
 • Horfa á RÚV og youtube í stað Stöð 2/Netflix
 • Fara í tjaldútilegu
 • Elda og borða góðan mat heima
 • Hlaupa úti

Samantekt

Taktu til í flokki A. Hugsaðu um hina mikilvægu fáu eins og ofvaxna runna. Þú þarft að snyrta þá til, gera þá minni, klippa af óþarfa grein hér og þar. Svo á næsta ári skaltu skoða runnana og hugsa: ,,Er ég ánægður með þessa runna? Veita þeir mér raunverulega gleði?“ Snyrtu þá aftur. Gerðu það einu sinni á hverju ári. Þú verður miklu ánægðari með þá fyrir vikið. Þessir fimm runnar stýra næstum helmingi af öllum útgjöldum þínum og tíma þínum er vel varið þegar þú snyrtir þá til.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s