Eftirstöðvar: 8,3 milljónir
Að taka nesti með í vinnuna hefur reynst mjög áhrifarík leið til að spara pening fyrir húsnæðislánið. Það felst ekki mikil fyrirhöfn í því að útbúa nesti. Til að gefast ekki upp á því finnst mér gott að einfalda það eins og hægt er og halda sig við það sama. Ég tek alltaf sama nestið með í vinnuna, samloku með osti og papriku og einn banana.
Hádegismatur í vinnunni kostar 440kr sem flestum þykir ekki hátt verð fyrir heita máltíð. En hvað kostar það miðað við nesti? Gerum samanburð við nestið mitt. Þrjár brauðsneiðar af sólkjarnabrauði með 62gr af osti og 64gr af papriku og einn 165gr banani kostar samtals um 248kr (miðað við verð í Bónus). Það er 192 krónum minna en ,,ódýri“ hádegisverðurinn í vinnunni.
Sé miðað við 223 vinnudaga á ári gera það 42.816 krónur yfir árið sem hægt er að kasta á höfuðstólinn.
Annar kostur við nestið er að ég veit alltaf hvað ég fæ í matinn. Ég verð ekki fyrir vonbrigðum þegar mér finnst hádegisverðurinn ólystugur og ef það er mjög góður matur í boði hugsa ég: ,,Hvað með það? Ég borða til að næra mig og fjarlægja hungur en ekki til að halda veislu handa bragðlaukunum á hverjum degi.„. Þar að auki veit ég að nestið er hollt og því er ég að stuðla að eigin heilsu í stað þess að treysta á að aðrir útbúi hollan mat fyrir mig.
2 thoughts on “Baráttan við lánið #1”