,,Taktu eftir því sem þú tekur eftir.“

-Þorvaldur Þorsteinsson-

Í fyrstu færslunni minni sagði ég frá því að ég tek alltaf með mér nesti í vinnuna. Ég áætlaði þá að það sparaði mér 42.816kr á hverju ári. Þetta geri ég enn og mun koma til með að halda áfram að gera.

Í vinnunni minni er annars ágætur vinnufélagi sem glottir og spyr mig reglulega: ,,Er það samloka og banani í dag?“ Nú veit hann fullvel að ég kom með samloku og banana. Honum finnst þetta greinilega vera sérvitur hegðun og finnst gaman að gera létt grín að þessu. Ég glotti til baka og svara: ,,Alltaf.“

Þrátt fyrir að hafa spurt hundrað sinnum hvort það sé ,,samloka og banani í dag?“ eða hvort ég verði aldrei leiður á sama nestinu hefur þessi vinnufélagi minn aldrei, ekki í eitt skipti, spurt hvort einhver ástæða sé fyrir þessari venju. Fyrir honum er ég bara sérvitur.

Myndi honum allt í einu detta í hug að spyrja hvers vegna ég tek alltaf með mér nesti þá myndi ég svara: ,,Fyrir utan að mér finnst nestið hollt og gott þá er ástæðan sú að það felur í sér of mikinn fórnarkostnað að kaupa mat í vinnunni eða fara út í lunch.“

Þá myndi vinnufélagi minn kannski spyrja: ,,Fórnarkostnað? Varla er svo dýrt að kaupa mat í vinnunni?“

Þá myndi ég segja: ,,Jú sjáðu til, hver dagur sem ég kem með nesti sparar mér um 192kr eða 42.816kr á hverju ári. En þar með er ekki öll sagan sögð, fórnarkostnaðurinn er ekki aðeins þessi eina upphæð heldur einnig þeir peningar sem upphæðin getur skapað mér ef ég fjárfesti henni.“

Vinnufélagi: ,,Skyndilega þykir mér þetta áhugavert. Haltu áfram.“

,,Segjum sem svo að í hverjum mánuði fjárfestir þú þessum krónum á hlutabréfamarkaði sem gefur 8% meðalávöxtun. Eftir 10 ár verður sú upphæð komin yfir 600 þúsund krónur.

Vinnufélagi: ,,Vá.“

,,Bíddu hægur. Eftir 20 ár verður upphæðin komin yfir 2 milljónir. Og eftir 30 ár verður hún komin yfir 5 milljónir.“

Þá myndi vinnufélaginn minn kannski segja: ,,Vá! Nú skil ég, þegar ég hef spurt um ástæðu þess hvers vegna þú tekur alltaf með þér hollt og gott nesti í vinnuna. Svei mér ef ég fer ekki að gera það sama“.

,,Það er gott. Nú ef þig langar að halda áfram að borða unnin kjötbúðing og næringarlausa kartöflumús sem fela í sér 5 milljóna króna fórnarkostnað yfir 30 ára tímabil, gjörðu svo vel. Lifðu þínu lífi. En gerðu mér einn greiða. Taktu eftir því sem þú tekur eftir. Alls staðar eru tækifæri til að læra eitthvað nýtt.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s