Eftirstöðvar: 0 krónur

Arrakis kennir viðhorf hnífsins – að skera í burtu það sem er óklárað og segja: ,,Nú er það klárað því það endar hér“.

-Dune-

Ég borgaði lánið mitt upp í sumar. Ég hefði verið lengur að því ef ekki væri fyrir allt sem er að gerast í samfélaginu og heiminum þessa dagana. Ég hafði áætlað að klára lánið seint á þessu ári eða einhvern tímann á því næsta. En svo kom veiran og með henni fullkominn stormur ringulreiðar.

Markaðir heimsins tóku skarpa dýfu. Hálfu ári síðar er staðan enn mjög óljós. Það er alveg óljóst hvenær viðskiptalífið kemst í eðlilegt horf. Ríki heimsins prenta og prenta peninga til að halda sér á floti en grafa um leið dýpri og dýpri holu þegar þau grafa undan gjaldmiðlum sínum. Ég er enginn seðlabankastjóri en ég sé ekki hvernig svo gífurlegt inngrip í efnahagslífið með prentun peninga getur haft góð áhrif til langtíma litið á meðan veiran er ósigruð. Þetta gætu allt eins verið spilavítispeningar. Verða krónurnar á sparireikningnum mínum jafn verðmætar að ári liðnu? Afar ólíklegt. Eru góðar væntingar til ávöxtunar verðbréfa? Ég get ekki sagt það. Annar óvissuþáttur er atvinna. Ég tel mig öruggan í mínu starfi en get þó ekki sagt með fullkominni vissu að ekki þurfi að skera niður störf.

Umkringdur óvissu vildi ég beina peningunum mínum þangað sem vissu var að hafa. Húsnæðislánið mitt stóð eins og klettur í þessum ólgusjó ringulreiðar og gaf mér loforð um vexti og verðbætur, tugir milljóna á minn kostnað. Engin óvissa þar. Ég sameinaði því peninga úr sparireikningum og verðbréfum og sprengdi klettinn. Og núna er lánið klárað því ég endaði það. Því ég ákvað að það yrði ekki lengi hluti af lífi mínu.

Í mörg ár hafði ég ímyndað mér hvernig tilfinningin væri, að klára lánið. Ég myndi hoppa hæð mína, hlæjandi og hlaupandi í hringi eins og ég hefði skorað mark á lokamínútu. En í raun var tilfinningin önnur. Ég hafði vitað mánuðum saman að lánið var að klárast, ég var 10-0 yfir og vitað mál að leikurinn var unninn. Það vildi svo til að ég var í gönguferð þegar ég borgaði síðustu greiðsluna úr símanum mínum. Ég ýtti á greiða og beið eftir að hoppa hæð mína af gleði. En tilfinningin kom ekki. Í fyrstu fann ég í raun ekkert og ég hélt för minni áfram. Svo fór ég að finna eitthvað, í stað sprengingar fann ég fyrir kraumandi vellíðan. Létti. Ég fyllti lungun af lofti, hreinu fersku lofti. Ég fór að skoða fossa, döggin í grasinu og mosanum glitraði í mildri dagsbirtunni, tjaldurinn blístraði og krían gargaði.

Um kvöldið keyrði ég heim og sólin lækkaði á lofti. Allt í lífinu rís og fellur eins og sólin. Allt á sinn tíma. Tíminn er það verðmætasta af öllu. Við getum ekki grafið upp meiri tíma en okkur er úthlutað. Ég vil nota tímann vel. Ég vil ekki nota hann til að vinna fyrir lánum, neyslu og drasli. Ég vil eyða honum með börnunum mínum á meðan ég get. Áður en ég keyri af stað inn í sólarlagið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s