Eftirstöðvar: 8,1 milljón

,,Borgaðu sjálfum þér fyrst“. Þetta heyrist oft þegar talað er um sparnað, enda mjög gott ráð. Tilhneyging mannsins er nefnilega sú að grípa hvert tækifæri og njóta oft og vel. Þetta kom sér vel fyrir mörg þúsund árum þegar við flökkuðum um slétturnar og matur var af skornum skammti. Þá gat hvert ónýtt tækifæri verið dauðans alvara. Í dag hefur þetta snúist upp í andhverfu sína og tilhneigingin til að njóta oft og vel leiðir til ofþyngdar og tómra vasa ef við ekki höfum stjórn á löngunum okkar. Ef markmiðið er að spara eða borga inn á höfuðstól láns er skynsamlegt að byrja á því fyrsta hvers mánaðar í stað þess að ætla að nota afgangspening í lok mánaðarins þegar búið er að borga helstu nauðsynjar. Raunin er sú að tilhneyging okkar til að njóta oft og vel fær okkur stundum til að kaupa óþarfa svo lítið verður um afgangsaura.

Ég hef haft það sem reglu að ákveða fyrir mánaðarmót hversu mikið fer inn á höfuðstól húsnæðislánsins. Þetta er alltaf sama upphæðin en svo bæti ég við hana sem nemur lækkun á mánaðarlegri afborgun á láninu. Það mætti kalla þetta einhverskonar snjóboltaaðferð. Gefum okkur dæmi: Ég ákveð að greiða aukalega 70 þúsund krónur á höfuðstól lánsins. Segjum að afborgun á láninu sé 100 þúsund krónur. Við næstu mánaðarmót fæ ég reikning upp á 99.500kr. Þá ákveð ég að greiða 70 þúsund plús 500 krónur eða samtals 70.500 krónur.

Þessi aðferð hefur virkað mjög hvetjandi fyrir mig og það er mjög gaman að sjá aukagreiðsluna hækka og hækka. Eins og staðan er í dag hefur mánaðarlega aukagreiðslan mín hækkað um 25 þúsund krónur sem þýðir 300 þúsund krónur til viðbótar á höfuðstól lánsins á hverju ári.
Aðalatriðið er að slá þessu ekki á frest eða bíða eftir rétta tækifærinu til að byrja að borga inn á lánið. Besti tíminn er núna! Það skiptir engu hvort lánið er 10, 40 eða 60 milljónir. Hér eiga orð Markúsar Árelíusar vel við: ,,Þetta er það sem þú átt skilið. Þú gætir gert vel í dag en í stað þess velur þú morgundaginn.“ Ég ætla að gera mitt besta til að gera eins vel og ég get í dag, ekki á morgun.

Færðu inn athugasemd