Eftirstöðvar: 8,0 milljónir
Ég er nýlega byrjaður að gera tilraun með að draga úr kortanotkun og nota reiðufé í staðinn. Það eru gildar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi er kostnaður. Hver greiðsla með debetkortinu kostar 17kr. Slíkur kostnaður getur verið fljótur að safnast saman í stóra upphæð. Gerum ráð fyrir að debetkortið sé ekki notað sjaldnar en einu sinni á dag. Á einu ári gera það 6.205 krónur. Það eru sex þúsund krónur sem ég vil miklu frekar nota til að kasta á höfuðstól lánsins í stað þess að greiða í djúpa vasa bankanna.
Í öðru lagi langar mig að vera meðvitaður um mína neyslu. Hversu oft hef ég rétt fram debetkortið í hugsunarleysi þegar ég kaupi tyggjó eða eina gosflösku? Eins og ekkert sé sjálfsagðara en að ég geti rétt fram plastspjald til að verða mér út um allskonar nauðsynjar í lífinu (og allskonar ómerkilegan óþarfa). Reiðuféð hjálpar mér að vera meðvitaðri um eyðsluna mína og hversu mikið fé ég á eftir. Það hjálpar mér að hugsa vel um peningana, sem ég hef öðlast með því að gefa tíma af mínu lífi til að leysa krefjandi verkefni í vinnunni. Vörur og þjónustu kaupum við ekki bara með peningum heldur okkar eigin tíma og erfiði. Hversu oft erum við meðvituð um það? Ekkert er sjálfsagt. Ég vil hugsa með mér: ,,Ég gæti alveg eins hafa fæðst í öðru landi og á öðrum tíma þar sem ekki væri mögulegt að greiða fyrir nauðsynjar, í stað tíma okkar og erfiðis, á svo einfaldan máta. Ég er þakklátur fyrir þetta samfélag sem ég bý í sem 99% manna sem gengið hafa á jörðinni hafa aldrei fengið að njóta. Það er ekki sjálfsagt að ég fái að njóta þess. Ég ætla að nota þetta tækifæri vel og ekki kaupa tyggjó og óþarfa í hugsunarleysi.“
One thought on “Baráttan við lánið #3”