Eftirstöðvar: 7,0 milljónir
Margir Íslendingar virðast halda að mjög stór og þægilegur bíll sé lífsnauðsyn á Íslandi. Þetta er jú Ísland, land víkinganna! Ef þú ætlar að lifa af verður þú að eiga fjórhjóladrifið jeppaskrýmsli, svona ef þú skyldir festast uppi á jökli á leiðinni í Bónus. Jeppinn verður að hafa nóg geymslupláss fyrir bónuspokana og auðvitað tvö hreindýr, svona til vonar og vara ef við sjáum einhver á leiðinni heim sem við getum skotið út um gluggann. Ekki kemur að sök að stórir bílar eru alltaf öruggari, svo ef þú skyldir lenda í árekstri við hallærislegan og ömurlegan smábíl eins og yaris þá valtar jeppinn þinn bara yfir hann.
Nema hvað að þetta er algjört kjaftæði. Fæstir Íslendingar þurfa svona stóra og bensínþyrsta bíla. Stærsti kosturinn við svo stóra bíla er að festast ekki í snjó í einn eða tvo tíma á meðan ekki er búið að ryðja. Sem gerist kannski þrisvar til fjórum sinnum á ári. Ef þú vilt kveikja í nokkur hundruð þúsund krónum til að losna við slíkt vesen þá verður að hafa það en ég vil miklu frekar henda peningunum í húsnæðislánið.
Veistu hvað er miklu svalara en að fara á jeppaskrýmsli í Bónus? Að fara á reiðhjóli. Ekki einu sinni nýju koltrefja keppnishjóli sem annar hver Íslendingur með lífsstílsbólgu á í dag. Bara gömlu draslhjóli. Eitthvað sem afi þinn á í bílskúrnum og er að safna ryki. Eitthvað sem lítur út fyrir að hafa verið framleitt í Sovétríkjunum. Punkturinn er að það þarf bara að koma þér í Bónus en ekki hjálpa þér að sigra Tour de France. Þú þarft þó eitthvað geymslupláss. Það fer eftir fjölskyldustærð. Einstaklingur getur líklega reddað sér með bakpoka og eina eða tvær hliðartöskur. Ég með mína vísitölufjölskyldu (par með tvö börn) redda mér mjög vel með áfastan vagn eins og sést hér:
Það fylgja því margir kostir að fara hjólandi í Bónus:
- Engin bensíneyðsla
- Er umhverfisvænt
- Er ágæt líkamsrækt
- Það er alltaf laust stæði beint við innganginn
- Engin rauð ljós eða umferðarteppur á hjólreiðastígnum
Ég skil vel að það er ekki á færi allra að hjóla í Bónus. Ég fer ekki alltaf hjólandi. Þegar ég kemst ekki á hjóli fer ég á bíl. Það er hinsvegar ekki jeppi heldur Honda Jazz, lítill og nettur bíll sem eyðir litlu og hefur gott geymslupláss miðað við stærð. Fjölskyldan þarf ekki stærri bíl. Þar að auki er hann ekki glænýr heldur 2008 árgerð. Fjölskyldan þarf ekki heldur glænýjan bíl sem rýrnar um mörg hundruð þúsund krónur í verði á fyrstu árunum.
Gerðu sjálfum þér greiða. Þegar þú vilt komast á milli staða skaltu gera það á eins hagkvæman (og öruggan) máta og þú getur. Þú þarft að öllum líkindum ekki glænýjan tveggja tonna vélsófa með rassahita og fjórhjóladrifi sem mergsígur bankareikninginn þinn.
2 thoughts on “Baráttan við lánið #8”