Eftirstöðvar: 7,3 milljónir
Tekjublað Frjálsrar Verslunar vekur alltaf mikla athygli á hverju ári. Íslendingar eru mjög áhugasamir um tekjur annarra og þykir mjög flott að fá góð laun, sem fyrir marga er eins konar stöðutákn. Fjölmargir Íslendingar hljóta að vera á mjög grænni grein með yfir milljón í tekjur á mánuði. Eða hvað?
Margir með góðar tekjur falla því miður í þá gryfju að verða fórnarlömb ,,lífsstílsbólgu“ (lifestyle inflation). Segjum að launin þín hækki um 100 þúsund krónur. Hvað ætlar þú að gera við peningana? Sumir borga kannski lánin sín hraðar eða reyna að spara þessar aukakrónur, sem þeir gátu hvort sem er komist af án áður. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að fullyrða að langflestir fái slæmt tilvik af lífsstílsbólgu. Þeir kaupa sér t.d. aðeins nýrri og flottari bíl, því þeir hafa efni á því. Þeir kaupa sér stærra og glæsilegra hús, þeir hafa efni á því líka. „Nokkrar utanlandsferðir hér og þar, ég á það skilið. Stórt grill og nýja eldhúsinnréttingu, hey ég er flottur á því. Svo ef það vantar aðeins upp á það að launin dekki þessi nýju kaup þá er auðvitað hægt að taka aðeins hærri lán fyrir nýja húsinu eða bílnum. Tekjurnar eru hvort sem er frekar góðar, svo ég á efni á láninu. Ég er búinn að meika það.“
Lífsstílsbólgan veldur því að fólk kaupir sér fullt af drasli eða eignum sem það annaðhvort þarf ekki eða gat lifað af án áður. Þegar uppi er staðið á fólk allt þetta drasl en líka tóma vasa eða, sem er verra, enn hærri skuldir en áður. Oft er fólk ekki beint að kaupa hluti sem gerir það mikið hamingjusamara heldur er það miklu frekar að kaupa sér viðurkenningu (eða öfund) annarra. Fólki langar að búa í glæsilegu húsi og eiga flottan bíl til að falla í hópinn eða sýna að þeir hafi það betra en aðrir. Það vill hafa sýnileg stöðutákn svo það fari ekki á milli mála að hér er enginn lúser. Þess vegna sérðu ekki hátt launaða lögfræðinga eða lækna keyra „97 árgerð af Toyota Corolla. Hver treystir lögfræðingi á gamalli druslu? Bestu lögfræðingarnir eiga sportbíla!
Er það þess virði að fórna auknu frelsi, minni áhyggjum og náttúruauðlindum fyrir eitthvað eins og sportbíl svo að öðrum finnist að maður sé einhvers virði? Langar mig yfir höfuð að vinna mér inn virðingu fólks með slíkt gildismat? Ég þarf þess ekki og það þarft þú ekki heldur.
3 thoughts on “Baráttan við lánið #7”