Hér er allt svo frábært á Íslandi. Góðærið er allsráðandi og 2008 er löngu gleymt. Laun hækka. Það er tími fyrir kampavín og osta. Nýjan bíl. Verslunarferð til Glasgow. Þegar það er uppsveifla í hagkerfinu lepjum við rjóma. Það er íslenska leiðin. YOLO, þú lifir aðeins einu sinni ekki satt? Þú tekur ekki peningana með þér í gröfina.
Svo fara allir að þamba rjóma. Smá skvetta nægir ekki. Hvað gerist þá? Þú bólgnar út. Það kallast lífsstílsbólga. Svo vaknar þú einn daginn og gettu hvað? Rjóminn er búinn. Uppsveiflan í hagkerfinu er liðin hjá og fyrirtæki fara að skera niður. Verðbólga étur launin þín. Allt hækkar í verði. Engin utanlandsferð í ár. Selja nýja bílinn. Finna ódýrasta kaffið.
Þú ert búinn að lifa YOLO lífi og haga neyslu þinni eftir sveiflum í hagkerfinu. Ég myndi frekar kalla það jójó lífið. Svona lítur þetta út hjá þér:
Þegar peningarnir streyma inn er allt frábært og þú lifir góða YOLO lífinu. Svo kemur niðursveifla og peningaflæðið minnkar. Þá er allt hey í harðindum. Þú grætur úr þér augun yfir óréttlæti heimsins, ríkisstjórninni og græðginni, sem er alls ekki þér að kenna. Svo kemur önnur uppsveifla og ballið byrjar aftur. Þú ferð aftur að þamba rjóma. Upp og niður sveiflastu með hagkerfinu og lætur örlögin um að stjórna lífsstílnum þínum. Þar að auki hefur lífsstílsbólgan gert þig háðari lúxus svo að á meðan þú fékk fjórar gullstangir á fyrsta tímabili finnst þér þessar sömu fjórar gullstangir vera hungurlús nokkrum árum seinna.
Hvað er hægt að gera í þessu? Af hverju getur ekki allt verið frábært, alla daga, endalaust? Það er hægt. Auðvitað er óstöðvandi hamingjuástand mjög ólíklegt í þessu jarðlífi en ef við hættum að leyfa ytri áhrifum að stjórna lífi okkar og grípum sjálf í taumana getum við gert allt miklu frábærara en það er nú þegar. Til þess þarf að ræsa tvær vélar: Viðhorfsvélina og peningaflæðivélina.
Þetta er viðhorfsvélin. Það er heilinn okkar og öll hugsun. Það frábæra við þessa vél er að hún getur breytt einu viðhorfi í annað. Á tímum þegar allt er hey í harðindum hjálpar viðhorfsvélin okkur að kunna betur að meta hlutina í lífinu. Þú ert ekki á glænýjum volvo en gamli skrjóðurinn komst vel í gegnum síðustu skoðun og kemur þér frá A til B vandræðalaust. Þú býrð ekki í 250 fermetra höll en þú átt þak yfir höfuðið og inni er hlýtt og notalegt með fjölskyldunni þinni. Þú ert ekki á leið til Fiji eyja en í ökufæri eru tugir gullfallegra fossa sem þú hefur aldrei séð og ferðamann borga stórfé til að sjá. Þú þarft ekki alltaf að vera í 100% YOLO innspýtingu til að lifa hamingjusömu og innihaldsríku lífi. Ekki gleyma að sumir hafa aldrei og munu aldrei njóta þess sem þú átt nú þegar, þak yfir höfuðið í fallegu og velmegandi landi. Í raun hefur mannkynið eytt tugum þúsunda ára í að kroppa í dýrahræ í snjóstormum og leita í örvæntingu að skjóli undan miskunarlausum rándýrum. Í þessu samhengi má sannarlega segja að hér er allt svo frábært.
Þegar þú hefur komist að þeirri niðurstöðu að allt er frekar frábært muntu upplifa svolítið skemmtilegt. Allt í einu áttu fleiri gullstangir vegna þess að þú ert ekki að eyða þeim öllum í einhvern ímyndaðan YOLO fáránleika lúxusbíla, utanlandsferða og eldhúsinnréttinga. Næsta skref í átt að meiri frábærleika er að skella þessum auka gullstöngum í peningaflæðisvélina:
Þessi vél er skemmtileg því hún breytir einni gullstöng í fleiri gullstangir. Til allrar hamingju er þessi vél líka mjög aðgengileg. Þú notar hana þegar þú greiðir niður lánin þín, þegar þú leggur peninga inn á sparireikninga eða þegar þú kaupir verðbréf. Í raun hrekkur hún í gang við hvaða aðstæður sem fá peningana til að vinna fyrir þig og margfaldast. Þegar vélarnar hafa verið ræstar lítur nýtt og endurbætt YOLO graf svona út:
Viðhorf þitt hefur breyst svo þér finnst lífið að öllu jöfnu frábært á hverjum tímapunkti. Peningarnir vinna fyrir þig og framleiða enn meiri peninga svo fjárhagurinn er hættur að vera eins sveiflukenndur og fer sífellt batnandi. YOLO heldur enn gildi sínu en undir breyttum formerkjum. Þú lifir aðeins einu sinni, það er rétt. Vegna þess að þú lifir aðeins einu sinni skaltu gera sjálfum þér greiða og bæta fjárhagslegt öryggi þitt og fjölskyldu þinnar svo þú fáir betur að njóta þessa eina lífs. Vertu viðbúinn krepputímum sem skerða lífsgæði þín, því kreppan mun koma. Íslendingar hafa vitað öldum saman að veturinn kemur alltaf aftur.