Snemma á síðasta ári setti ég mér markmið og ákvað að draga verulega úr notkun greiðslukorta. Það hefur reynst vera áhugaverð tilraun. Fólk veit ekkert hvað reiðufé er í dag. Vegna þess að ég borga með reiðufé á ég yfirleitt nóg af klinki. Ég borgaði mat fyrir þúsund krónur um daginn eingöngu með fimmtíuköllum. Strákurinn sem afgreiddi mig rak upp stór augu og sagðist aldrei í lífi sínu hafa séð svo marga fimmtíukalla. Mér leið svolítið eins og tímaflakkara. Ég efa að hann hefði verið meira undrandi hefði ég sett upp einglyrni og spurt: ,,Takið yður ekki við þessu fé í þessari verzlunarstofnun?

Kortanotkunin mín hefur minnkað verulega. Lítum á debetkortanotkunina mína fyrir árin 2016 og 2017:

chart

Árið 2016 notaði ég kortið mitt í 425 skipti og miðað við 17 krónur í kostnað fyrir hverja færslu kostuðu þær mig 7225 krónur. Árið 2017 notaði ég kortið í 180 skipti sem kostaði 3060 krónur. Það má því áætla að ég spari um 4000 krónur árlega miðað við mína kauphegðun í dag.

,,Okey herra Jóakim… kommon… 4000 krónur sem þú sparar? Af hverju ertu að standa í þessu veseni?“

4 þúsund krónur kann að vera lítill sparnaður í stóra samhenginu. En þetta snýst ekki um fjóra þúsundkalla. Þetta snýst um hugsun og vana. Þetta snýst um að vera meðvitaður um peningana sína og hafa stjórn á þeim. Debetkort eru voða þægileg en þægindi kosta þig.

Þú vilt kannski borga fyrir þægindi. Allt í lagi. Af hverju þá ekki að taka þægindin skrefinu lengra? Af hverju ekki að eiga greiðslukort sem veitir þér lítið lán ef þú ert búinn með aurinn? Stundum eru útgjöldin mikil og þá er óþægilegt að eiga ekki pening fyrir nauðsynjum. Kreditkortið getur reddað þessu, einfalt og þægilegt, veitir þér smá yfirdrátt sem þú borgar með vöxtum seinna.

Af hverju að stoppa hér? Þú sagðist vera tilbúinn til að borga fyrir þægindi. Greiðslukort geta borgað fyrir ýmislegt en eru óhentug þegar þú þarft að millifæra pening á vinnufélagann þinn fyrir pítsu. Þá getur app í símann reddað málunum. Þú slærð bara inn símanúmer vinar þíns og upphæðina. Búið mál. Afgreitt. Einfalt og þægilegt.

Og af hverju að stoppa hér? Þetta getur verið enn þægilegra! Hvað ef þú leyfir appinu að tengjast samfélagsmiðlunum þínum og vafrasögu? Þá getur appið birt þér sérsniðnar auglýsingar fyrir vöru og þjónustu sem þú vissir ekki einu sinni að þú vildir. Þú veist hins vegar núna að þú verður að eignast þetta! Það er mjög þægilegt þjónusta ekki satt? Bara einn smellur í appinu og málið er afgreitt. Einhver er lagður af stað í vöruhúsi í Kína til að finna vöruna og senda hana af stað til þín.

Nei, bíddu. Greiðslan gekk ekki í gegn segir appið. Mjög óþægilegt! Engar áhyggjur. Appið getur veitt þér smálán. Smelltu bara hér. Núna er vinnuþræll í Kína að finna vöruna fyrir þig. Þetta verður varla þægilegra.

En ég er hræddur um að ég leyfi þér ekki að stoppa hér. Ekkert er einfaldara og þægilegra en Hal 9000. Þessi snjalltölva er ómissandi heimilistæki sem hlustar á samtöl ykkar hjónanna og veit hvenær tími er kominn til að kaupa rósir handa makanum eftir erfiða viku. Það les varir barnanna þinna og veit hvaða leikfang þau óska sér mest. Það mælir lífsmörkin þín og getur mælt með bætiefnum þegar púlsinn er of ör eða líkamshitinn of hár. Það veit hvenær þú ert að fara til Boston og miðað við rigningarspána í næstu viku mælir það með regnhlíf á 20% afslætti. Það samtengist Hal 9000 á heimilum vina þinna og veit að Bjössa vini þínum langar mjög í nýja veiðistöng. Og gettu hvað Bjössi á afmæli eftir 3 daga og veiðibúðin er með tilboð aðeins þessa viku! Engar áhyggjur. Hal 9000 deilir aldrei upplýsingum til þriðja aðila nema þú gefir leyfi.

Svo nú þegar þægindin þín hafa verið hámörkuð hefur aldrei verið eins auðvelt að kaupa vöru og þjónustu. Hins vegar hefur aldrei verið eins auðvelt fyrir aðra að taka peninga úr vasanum þínum á þínu eigin heimili. Beint fyrir framan nefið á þér. Þú veitir enga mótspyrnu og horfir brosandi á.

Svo þú sérð að þetta snýst ekki um nokkra þúsundkalla. Þetta snýst um að sofna ekki á verðinum. Því auðveldara sem það er verður að versla því auðveldara er að vera blankur. Og ekki bara blankur heldur skuldugur og fjötraður þræll án hlekkja.

2 thoughts on “Þræll þæginda

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s