Fyrir ekki svo löngu síðan var mér hugleikið hvernig einfaldleiki og þægindi í viðskiptum gera það auðvelt fyrir aðra að hirða af okkur peningana og gera okkur að skuldaþrælum á meðan við horfum brosandi á. Það verður sífellt auðveldara að borga fyrir vörur og þjónustu á netinu og snjallsíminn er sífellt stærri tengiliður við alla helstu markaði heimsins. Við erum bara einum smelli frá því að kaupa okkur hvað sem hugurinn girnist.

Þessi tækni er auðvitað stórkostleg. En eins og staðan er í dag er hún án allrar ábyrgðar og það er fleira í húfi en peningarnir og frelsið okkar. Ef við setjum okkur ekki nein mörk gæti farið fyrir okkur eins og fór fyrir hinum fornu Krell.

Í söguþræði kvikmyndarinnar Forbidden Planet frá árinu 1956 lenda menn á plánetunni Altair IV, sem virðist vera með öllu líflaus pláneta. Mennirnir komast hins vegar að því að fyrir 200.000 árum bjuggu þar vitsmunaverur sem kölluðust Krell. Þetta voru háþróaðar og friðsælar verur, hafnar yfir stríð og ljósárum á undan mannkyninu þegar kom að tækni og siðmenningu. En dag einn hurfu þær eins og hendi væri veifað. Öll ummerki um hina fornu Krell þurrkuðust út af yfirborði Altair IV.

Söguhetjurnar komast að því að undir yfirborði plánetunnar leynist höfuðdjásn þessarar fornu siðmenningar: 33 þúsund rúmkílómetra stór vél, svo háþróuð og gífurlega öflug að þegar hún tengdist miðtaugakerfi Krell veranna gat hún skapað allt sem þær ímynduðu sér. Fullkomin sköpun með hugsun einni saman.

forbidden_planet_movie_silk_poster_krell_underground_machine_complex
Innan í Krell vélinni.

Það sem Krell verurnar vissu ekki var að þessi stórkostlegasta sköpun þeirra myndi leiða til endaloka tegundar þeirra. Krell vélin var svo skilvirk og næm að hún skapaði ekki eingöngu það sem verurnar ímynduðu sér. Vélin kafaði dýpra og las ómeðvitaða hugsun þeirra, sem þær höfðu haldið í skefjum í milljónir ára. Vélin gaf öllum frumstæðustu hvötum og hugsunum undirmeðvitundarinnar sjálfstætt líf. Græðgi, öfund, hatur og ótti spruttu fram sem sjálfstæðar verur, réttara sagt skrýmsli og djöflar, sem lögðu alla þeirra siðmenningu í rúst. Vélin, sem átti að vera fullkominn sköpunarkraftur, reyndist vera gjöreyðingarvopn þegar uppi var staðið.

Og hvernig tengist þetta því að versla á netinu í snjallsímanum?

Á þessari stundu ert þú að horfa á agnarsmáa Krell vél í lófanum þínum. Snjallsíminn er orðinn svo þægilegur og einfaldur til að versla á netinu að með hugsun einni saman getur þú skotist frá þessu bloggi og yfir í næstu netverslun þar sem þú getur eignast hvað sem hugurinn girnist með einum smelli, eins lengi og þú átt peninga fyrir því. Bara ein hugsun, einn smellur og Krell vélin þín setur af stað vel smurð færibönd alþjóðavæðingar þar sem hráefni eru fengin, þau eru mótuð, pakkað inn, markaðssett og seld. Fullkomin sköpun með hugsun einni saman. Svona næstum því.

Hver getur sagt að þessi hugsun á undan smellinum sé vel ígrunduð, skynsöm og rökrétt? Hvernig veistu að litla Krell vélin þín er ekki bara að bregðast við undirmeðvitund þinni og gefa ótta, græðgi, hatri og öfund sjálfstætt líf.

Óttinn segir: ,,Hvað á fólk eftir að halda ef ég sést í þessum gömlu skóm?“.

Græðgin segir: ,,Þessar hillur eru æðislegar, ég verð að fá þær í stofuna.“

Hatrið segir: ,,Þetta fífl heldur að hann sé einhvernveginn betri en ég því hann á nýjan iPhone.“

Það er til einföld lausn til að fá útrás fyrir allar þessar tilfinningar. Smelltu bara á PANTA.

Um leið og þú gerir það fara ósjálfbær færibönd alþjóðavæðingar af stað. Hráefni eru fengin með því að höggva niður regnskóga og ganga á aðrar takmarkaðar náttúruauðlindir. Hráefnin eru svo mótuð í vörur í kolefnisspúandi verksmiðjum. Útsjónarsamir markaðsfræðingar og sölumenn sannfæra þig svo um að gerviþarfir séu raunþarfir. Að lokum smellir þú á PANTA og tekur þátt í gjöreyðingunni. Svona gengur þetta áfram fyrir sig um allan heim, öfund, græðgi og ótti milljóna manna verða óstöðvandi ógnarskepnur, étandi, brennandi og óseðjandi, þar til ósjálfbæra færibandið fer að hiksta þegar náttúruauðlindirnar klárast og hart er barist um leifarnar. Þetta er hin óumflýjanlega niðurstaða verði færibandið ekki gert sjálfbært.

Einn biti í einu. Sama svæðið í Amazon regnskóginum með þriggja ára bili.

Þú ert ansi bjartsýnn náungi. Eigum við þá ekki bara að poppa upp poka af doritos og fylgjast þunglynd með á meðan undirmeðvitundin snýr okkur gegn hvoru öðru og rústar siðmenningunni?

Ég er bjartsýnn. Við getum ekki neitað því að þessar tilfinningar búa í okkur öllum. En við getum reynt að snúa á þær. Og það hjálpar ekki eingöngu umhverfinu. Það gerir okkur líka moldrík.

Hér eru 3 ráð til að snúa á undirmeðvitundina og draga úr óþarfa netverslun:

1. Slökktu á símanum. Þegar þú hefur fundið eitthvað sem þig dauðlangar til að kaupa í augnablikinu skaltu hugsa þig tvisvar um. Leggðu símann frá þér eða slökktu á honum. Gerðu eitthvað til að draga athyglina frá PANTA hnappinum. Gerðu eitthvað skemmtilegt með börnunum eða vinunum. Farðu í göngu eða á æfingu. Fáðu þér kaffi og lestu áfram í bókinni þinni. Sjáðu hvernig þér líður eftir 3 klukkutíma og hvort löngunin hafi breyst. Stundum er þessi löngun til að kaupa sér eitthvað ekkert nema tilfinning sem grípur mann og líður hjá.

2. Gerðu óskalista. Þegar ég sé eitthvað sem mig langar til að kaupa en þarf í raun og veru ekki set ég það á óskalista í tölvunni minni. Þar raða ég hlutunum, efst eru hlutir sem mig langar mest í og neðar eru hlutir sem mig langar minna í. Ég banna mér ekki að kaupa neitt, eina reglan er að ég kaupi fyrst hlutina sem eru efst á listanum. Það sem ég hef lært um sjálfan mig er að þegar einhver hlutur hefur verið á listanum í nokkrar vikur langar mig oft ekkert svo mikið í hann lengur. Ég hef strokað fjölmarga hluti út af listanum sem ég hélt að mig vantaði en í raun höfðuðu þeir aðeins til mín í augnablikinu.

3. Stundaðu þakklæti. Þegar ég er gráti næst yfir því að eiga ekki svifbretti úr Elko er gott að minna sig á hvað það er margt í lífinu sem hægt er að vera þakklátur fyrir. Prófaðu að horfa á The Pianist og spurðu svo sjálfan þig hvort lífið gæti verið verra. Spurðu sjálfan þig hvort þú hafir tekið mörgu í lífinu sem sjálfsögðum hlut. Ég er ekki að segja þér að kaupa ekki svifbretti eða annað dót og drasl, heldur aðeins að þú spyrjir sjálfan þig hvort lífið sé verra þrátt fyrir að eiga ekki þessa hluti.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s