,,Enginn maður fæðist ríkur. Sérhver maður, þegar hann sér fyrsta ljósið, er ánægður með mjólk og klæði. Þannig er upphafi okkar háttað, en þrátt fyrir það eru konungsríki of smá fyrir okkur.“
-Seneca-
Ég bý í einu ríkasta landi allra tíma. Íslandi. Mig skortir ekki neitt. Húsið mitt er tæknilegt undur með stöðugum hita, rafmagnslýsingu, interneti, hreinu vatni úr krananum og endalausum mat í ísskápnum. Ég þarf ekki einu sinni að opna bílskúrshurðina mína sjálfur. Ég er ekki fátækur maður.
Ef ég er ekki fátækur, er ég þá ríkur? Til að komast að því verð ég að reikna út hreina eign mína. Þá tel ég saman áætlað virði helstu eigna minna og dreg upphæðina frá eftirstandandi skuldum. Þegar þetta er gert í hverjum mánuði er hægt að fá fram skemmtilegt línurit:
Þessi mynd sýnir hvernig hrein eign mín hefur vaxið á þessu ári. Í byrjun ársins var hrein eign mín 12,5 milljónir en hefur vaxið upp í 14,8 milljónir. Vöxturinn er að mestu kominn til vegna niðurgreiðslu skulda og fjárfestinga.
Hrein eign mín er 14,8 milljónir þegar allt er talið saman. Þýðir þetta að ég er ríkur?
Líklega er ég bara meðalmaður á íslenskan mælikvarða. Ríkidæmi getur verið mjög afstætt hugtak. Til dæmis tilheyri ég ríkustu 8% jarðarbúa samkvæmt globalrichlist.com. Hversu nákvæmur sem sá útreikningur er er ekki hægt að neita því að Íslendingar njóta almennt betri lífsskilyrða heldur en flestir sem lifa eða hafa lifað á þessari plánetu. Við búum í útópísku tæknisamfélagi sem sér fyrir flestum líkamlegum þörfum okkar.
Andlegar þarfir okkar eru hins vegar á dystópískum villigötum. Þrátt fyrir að eiga fæði og klæði þurfum við eitthvað meira. Við vitum bara ekki alveg hvað það er. Sem betur fer eru jólin að koma. Það hlýtur bara að vera að mig vanti meira dót til að vera hamingjusamur.
En við vitum að það er ekki svarið. Í raun og veru verður mér stundum svolítið óglatt þegar ég hugsa til jólanna. Mér finnst þau svolítið dapurleg. Ég segi það ekki til að móðga neinn eða gera lítið úr velvild annarra. Mér finnst bara neyslan í kringum jólin algjörlega sturluð, í samfélagi manna sem flestir eiga allt nú þegar.
Þetta minnir mig allt á frægt atriði úr The Meaning of Life eftir Monty Python gengið. Hr. Creosote, sem er gríðarlega stór og feitur maður, gengur inn á fínan veitingastað. Hann pantar sér gífurlegt magn af flottum mat: froskalappir, andalifrarkæfu, kavíar, trufflur, kampavín og fleira. Sannkallað hlaðborð. Þjónarnir elska Hr. Creosote, ,,Vel valið herra! Auðvitað herra!“ enda malar Hr. Creosote gull fyrir þá með sínu hömlulausa áti. Hr. Creosote étur svo mikið að á endanum ælir hann yfir sjálfan sig og starfsfólkið. Þrátt fyrir þetta halda þjónarnir áfram að bjóða honum mat og spyrja hann hvort hann vilji ekki ,,bara eitt lítið myntusúkkulaði til viðbótar“. Í fyrstu afþakkar Hr.Creosote myntusúkkulaðið en þjónarnir eru svo ágengir að hann gefur sig að lokum og bókstaflega springur á mjög viðbjóðslegan hátt.
Við Íslendingar erum kannski svolítið eins og Hr. Creosote. Búnir að fá nóg fyrir löngu en kunnum ekki að segja það gott. Verslanirnar (þjónarnir) vita að við mölum gull fyrir þær og halda áfram að bjóða okkur frábær tilboð: ,,Bara eitt pínkulítið myntusúkkulaði herra minn/frú mín?!“.

Ég vil ekki lengur vera Hr. Creosote. Það besta við síðustu jól var að sjá jólagleði barnanna minna og að láta gott af mér leiða til góðgerðarmála. Allt annað er aðeins ofhlaðið skraut. Ég ætla að gefa meira til góðgerðarmála í ár heldur en í fyrra og gefa í hlutfalli við hreina eign mína. Í ár gef ég þúsund krónur fyrir hverja milljón í hreinni eign og ég ætla að gera þetta að árlegri hefð á mínu heimili. 24.desember ætla ég að setjast niður með strákunum mínum og gefa 14.800 krónur til verndunar og eflingar á sjálfbærri nýtingu Amazon frumskógarins.
Vertu með í þessari nýju hefð og þá verður þetta sannkallað jólahlaðborð! Reiknaðu út hreina eign þína og sjáðu hvort þú sérð þér fært að gefa þúsund krónur til góðgerðarmála fyrir hverja milljón sem þú átt.
Gleðileg jól!
One thought on “Gefðu bjartari framtíð”