Hugsaðu fljótt. Teldu upp þrjár jólagjafir sem þú fékkst í fyrra. Gefðu þér hálfa mínútu.
Svolítið erfitt? Ég reyndi að rifja þetta upp og greip í tómt. Ég spurði konuna mína og það var fátt um svör. Mig grunar að það sama eigi við flesta í kringum mig. Og kannski þig líka.
Svo þá vaknar spurningin: Til hvers? Til hvers að standa í þessu vitandi að við verðum búin að gleyma flestum gjöfunum innan árs? Vitandi að þær eru flestar fengnar á ósjálfbæran máta, pumpað út úr orkufrekum reykspúandi verksmiðjum og fluttar yfir hálfan hnöttinn í reykspúandi skipum? Við höldum áfram af gömlum vana, nú þegar er jólatréð drekkhlaðið af gjöfum heima hjá mér. Ég skil þetta, við viljum gleðja okkar nánustu og sína þeim væntumþykju. Ég skil þó ekki, því við vitum hvaðan hlutirnir koma og hvað þeir kosta.
En hvers vegna er svona erfitt að muna eftir gjöfunum sem við fengum í fyrra? Ástæðan er sú að við höfum aðlagast nautninni. Ég las bókina ,,The Paradox of Choice“ þar sem höfundurinn Barry Schwartz lýsir þessu fyrirbæri ágætlega:
,,Við einfaldlega venjumst hlutunum og svo förum við að líta á þá sem sjálfsagða. Fyrsta borðtölvan mín var með 8 kílóbæta minni, hlóð forrit upp með kasettum og var allt annað en notendavæn. Ég elskaði hana og allt sem hún gerði mér kleift að gera. Á síðasta ári losaði ég mig við tölvu sem var nokkrum þúsundum sinnum betri því hún var of léleg fyrir þarfir mínar. Það sem ég geri í tölvunni hefur ekki breyst mikið en væntingar mínar til hennar hafa breyst.“
Síðar segir Schwarz:
,,Þegar við upplifum eitthvað gott rís ,,hitastig ánægju“ okkar og þegar við upplifum eitthvað slæmt fellur það. En svo aðlögumst við. Í þessu tilfelli kallast það aðlögun nautnar (hedonic adaptation) eða aðlögun að ánægju. Upplifun sem hækkar hitastig ánægju okkar um 20 stig í fyrsta sinn kann að hækka hana aðeins um 15 stig í annað sinn, aðeins um 10 stig eftir það og að lokum kann upplifunin ekki að hafa nein merkjanleg áhrif.
…Þegar hið stutta tímabil áhuga og ánægju dvínar situr fólk umvafið öllum þessum hlutum, sem eru endalaus áminning um að neysla er ekki eins frábær og við höldum, að væntingar koma ekki heim og saman við raunveruleikann.
…Hvað gerir fólk þegar það stendur frammi fyrir slíkum óumflýjanlegum vonbrigðum? Sumir hætta einfaldlega í eltingaleiknum og kunna ekki lengur að meta ánægju sem fengin er frá hlutum. Hins vegar eltast flestir við nýjungar, leita í vörum og upplifunum að ánægju sem hefur ekki verið þynnt út af endurtekningu. Með tíma munu þessar vörur og upplifanir missa glansinn, en fólk festist í eltingarleiknum, í ferli sem sálfræðingarnir Philip Brickman og Donald Campell kalla hlaupabretti nautnar. Það breytir engu hversu hratt þú hleypur í þessari vél, þú kemst ekkert áfram.“
Þetta tel ég vera ástæðu þess að ég á svo erfitt með að muna hvað ég fékk í jólagjöf í fyrra og árin á undan. Ég á flest sem mig vantar. Jólagjafirnar veita mér kannski einhverja gleði í nokkur stundarkorn, svo gleymast þær meðal hinna þúsunda hluta sem eru á heimilinu. Þessu má lýsa með mynd:
Okkur finnst jólagjafirnar æðislegar og spennandi sem börn og fáum mörg ánægjustig út úr þeim. Með tíma höfum við eignast fleiri hluti en við kunnum tölu á og ánægjan sem fæst af nýju dóti er minni og varir skammt. Jú, kannski hittir einhver á frábæra gjöf handa þér sem veitir þér mikla og langlífa gleði, en líklega er það undantekningin frekar en reglan.
Ánægjustigin mín tóku hins vegar skarpa sveiflu upp á við í fyrra. Ég get ímyndað mér að það myndi líta svona út á mynd:
Hvað gerðist hér? Ég fann jólagleðina, sem hafði verið svo kraftlítil árum saman. Ég gaf peninga í gott málefni og mér leið vel með að gefa. Það var kannski dropi í hafið en það eru droparnir sem mynda hafið. Mér leið ekki eins og ég væri fastur á hlaupabretti nautnar. Mér fannst ég hafa gert eitthvað sem hjálpar okkur áfram. Eitthvað sem raunverulega skiptir máli. Jólapakkar eru ekki hluti af lausninni. Að draga úr fátækt, hungursneið, sjúkdómum, ungbarnadauða, að auka sjálfbærni. Það eru lyklarnir að bjartari framtíð.
Börnin mín munu deila heiminum með börnum heimsins. Það er hagur allra að allir hafi það betra. Ekki bara sumir. Fornt spakmæli segir: ,,Kjöt er best geymt í maga bróðurs míns.“ Fólk sem þarf ekki að glíma við hungursneyð og sjúkdóma getur menntað sig, reist innviði, stofnað fyrirtæki og tekið þátt í alþjóðlegu hagkerfi þar sem hugar og hendur í milljarðatali skipta hugmyndum og lausnum á milli sín. Afleiðingin er ríkari og betri heimur fyrir alla.
Tölum aðeins um peninga. Ef þú ert jafn fáránlega spenntur yfir jólapökkunum og þú varst sem barn, getur ekki sofnað og stekkur um stofuna á náttfötunum… Allt í lagi, ég skal ekki dæma þig, njóttu vel. En ef þér líður eins og mér og finnst þetta orðið svolítið öfgakennt þá sérðu að það er bókstaflega verið að sóa peningum. Af hverju að eyða tugum þúsunda í gjafir ef þær tosa okkur ekki yfir eitt eða tvö ánægjustig? Svo ekki sé minnst á tímann og fyrirhöfnina sem fer í allar gjafirnar. Ég er fullorðinn, ég þarf ekki að setja skóinn í gluggann og ég þarf ekki pakka. Ég trúi ekki á jólasveininn og ég trúi ekki á ósjálfbæran lífsmáta. Ég er sáttur með jólaöl og smákökur yfir góðri jólamynd, rólegar stundir með fjölskyldunni, jólamat, jólaljósin og jólalögin. Kannski nokkrar gæðastundir með góða bók í sófanum fjarri vinnustaðaslúðri og drama.
Af hverju ekki að eyða minni peningum í fullorðna fólkið og nota þá í börnin, sem fá enn öll 20 ánægjustigin úr jólapökkunum? Eða að breyta til og gefa í gott málefni? Ánægjustigin munu rjúka upp svo þú færð þau á góðum verði.
Ég endurtek leikinn frá síðasta ári og gef þúsund krónur fyrir hverja milljón sem ég á í hreinni eign. Í fyrra stóð hrein eign mín í 14,8 milljónum en er nú orðin 20,4 milljónir.
Á aðfangadag mun ég gefa 20 þúsund krónur. Þær fara að þessu sinni til GiveWell sem hefur það markmið að bjarga sem flestum mannslífum fyrir hverja krónu.
Gleðileg jól!