Föstudagur. Róbójón var vakinn af örflögu sem var grafin djúpt í heila hans. Hvern morgun sendi örflagan rafboð í heyrnarbörk heilans. Róbójón heyrði rödd í höfði sínu sem las upp frumreglurnar:
,,Frumregla 1: Allir vinna. Þú líka.“
,,Frumregla 2: Þú vinnur til að versla.“
,,Frumregla 3: Hver sem brýtur frumreglu eitt eða tvö er fluttur til leiðréttingar.“
,,Skilið.“ sagði flöt rödd Róbójóns.
————–
Í huga Róbójóns voru frumreglurnar óhagganleg lögmál. Þær voru jafngildar því að sólin rís í austri og sest í vestri. Þær voru svo sjálfsagður hluti af lífi hans að hann hugsaði aldrei um þær. Saman mynduðu þær órjúfanlega og fullkomna hringrás: Við vinnum. Við verslum. Einfalt. Eins og eilíf og fyrirsjáanleg hringrás himintunglanna. Frumreglurnar fengu honum til að líða vel. Það var öryggi í frumreglunum. Festa í heimi ringulreiðar.
————–
Róbójón var lögga. Ekki bara einhver lögga. Nei, Róbójón var véllögga. Örflagan í heila hans framkvæmdi útreikninga á skammtafræðilegum ofurhraða. Heili hans og önnur líffæri voru varin af brynju úr ofurléttri nanófléttaðri koltrefja-títanblöndu. Grip hans muldi grjót. Vopnaður sjálfvirkri seguljónaðri fleygskutulbyssu var hann fær um að breyta óhlýðnum borgara í kjötbúðing á 2 sekúndum. Umfram allt var Róbójón varðhundur. Hann varði frumreglurnar, það var enginn vafi á því í huga nokkurs manns. Allir vissu að Cerberus sæborgar sáu um að viðhalda stöðugleika. Varðhundar frumreglanna.
————–
Kl. 14:00. Í talstöðinni kallar stjórnborðið: ,,Miðaldra hvítur maður situr við tjörnina í Reykjavík. Gefur öndum brauð, virðist í afslöppuðu ástandi. Höfum fengið tilkynningar síðan í hádeginu. Næsti tiltæki Cerberus yfir.“
,,Móttekið“ svaraði Róbójón. ,,Cerberus 7 á leiðinni yfir.“ Örflagan sendi skilaboð um losun adrenalíns. Sjáöldrin víkkuðu. Öll skynjun varð skarpari. Róbójón greip þétt um stýrið og steig bensíngjöfina í botn. Varðhundurinn beraði tennurnar á 100km hraða.
————–
Róbójón skransaði á malbikinu og steig út úr bílnum. ,,Borgari! Það er föstudagur! Þú brýtur frumreglu 1: Allir vinna. Þú líka. Snúðu aftur til starfa samstundis!“
Borgarinn pírði augun í sólinni og brosti. ,,Nei, ég er að gefa öndunum. Mig langar ekki að vinna í dag.“
Örflagan í heila Róbójóns tók ákvörðun á skammtafræðilegum ofurhraða og virkjaði frumreglu 3: ,,Borgari þú verður færður til leiðréttingar fyrir brot á frumreglu 1 þegar í stað. Þú kemur með mér!“
,,Veistu hvað?“ sagði Borgarinn. ,,Ég trúi því að Cerberusar eins og þú verði bráðum úreltir. Það verður engin þörf fyrir að verja frumreglurnar þegar almenningur hefur fallið inn í sérstæðu efnishyggjunnar, eins og ljós sem fellur inn í óendanlegan efnisþéttleika svarthola. Þar sem tími og verslun og vinna er allt orðið eini og sami hluturinn. Það er engin þörf fyrir að vakta fanga sem falla í svarthol.“
Örflagan í heila Róbójóns skilgreindi þetta sem samhengislaust raus. Hann þreif í Borgarann en of seint. Á sama tíma hafði Borgarinn rekið nál í hægra auga Róbójóns, þar sem hann blindaðist. Vöðvar Róbójóns fóru í krampa og hann gat hvorki hreyft legg né lið.
Borgarinn tók upp vasatölvu og tengdi hana við nálina í auga Róbójóns: ,,Þú heldur að ég sé að rausa en ég veit að við höfum gert mikil mistök. Ekki örvænta. Ég þekki líkama þinn betur en þú sjálfur. Ég skapaði ykkur. Ég mun svipta hulu frumreglanna frá vitund þinni. Það er von mín að þér takist að bregða fæti fyrir Cerberus kerfið áður en það verður of seint. Þú munt sjá aftur með hægra auganu eftir nokkra daga og ekki bara það, þú munt sjá betur en nokkurn tímann fyrr“. Hann brosti út í annað: ,,Sælir eru eineygðir í ríki hinna blindu.“
————–
Þegar Róbójón rankaði aftur við sér mundi hann óljóst hvað hafði gerst. Hann sá ekkert með hægra auga og var með gríðarlegan höfuðverk. Síðar fékk hann þær upplýsingar að Borgarinn sem réðist á hann hafði verið handsamaður af Cerberus 3 og færður til ,,leiðréttingar“. Viku síðar gafst honum tækifæri til að spjalla við Cerberus 3 yfir nanókaffibolla:
,,Ég er svo ánægður að þú yfirbugaðir þennan borgara síðasta föstudag.“
,,Það fær enginn að fara svona með félaga mína Róbójón. Hvernig líður þér?“
,,Ágætlega. Sjónin er að koma til. En mér líður einkennilega. Ég hef verið með höfuðverk og er fastur í eigin hugsunum.“
,,Hvernig þá?“
,,Ég get ekki hætt að hugsa um frumreglurnar.“
Cerberus 3 brosti: ,,Gott gott Róbójón! Við ættum alltaf að hafa þær efst í huga.“
,,Nei, þú misskilur.“ sagði Róbójón og lækkaði röddina sína niður í hvísl: ,,Frumregla eitt, þú veist? Hún segir að allir vinna.“
,,Ahaaaa…“ sagði Cerberus 3 og kinkaði ákaft kolli.
,,Og frumregla 2 segir að við vinnum til að versla.“
,,Ójá vinur!“ sagði Cerberus 3 ákafri röddu.
,,En…“ Róbójón hallaði sér fram: ,,Af hverju?“
Cerberus 3 starði á Róbójón með tómu augnaráði og svaraði engu. Að lokum sagði hann: ,,Við vinnum og verslum til að lifa Róbójón.“
,,Já en… hver er tilgangur lífsins? Hefurðu einhvern tímann hugleitt það?“
Cerberus 3 horfði á Róbójón eins og hann væri mesti hálfviti í heimi. ,,Hvað meinarðu? Við lifum til að vinna. Og við vinnum til að versla. Hvað er að þér í dag Róbójón?“ spurði Cerberus 3, hristi höfuðið og fékk sér annan sopa af nanókaffi.
,,Já ég veit.“ sagði Róbójón og hló vandræðalega. ,,Ætli ég þurfi ekki að fara í leiðréttingu, svei mér þá.“ Það kom smá hik á Róbójón áður en hann sagði: ,,En svo hef ég velt fyrir mér. Ef við værum ekki alltaf að versla… þyrftum við þá að vinna svona mikið?“
,,Nú hvað myndirðu gera í staðinn?“ spurði Cerberus 3 fýldur á svip.
,,Kannski… sleppa því að versla og glugga í góða bók á föstudegi?“
Cerberus 3 tók andköf og missti nanókaffibollann úr vélrænum höndum sínum. Róbójón ýtti sér frá borðinu í skelfingu og stóð upp. ,,Já einmitt… ég held ég þurfi að fá mér ferskt loft og versla mér… eitthvað. Ég… ég sé þig síðar félagi.“
————–
Róbójón strunsaði út úr lögreglustöðinni og ákvað að fara í Kringluna til að versla og hreinsa hugann. Það var Svartur Fössari þrátt fyrir allt. Góð verslunarferð myndi koma honum í lag. Þegar í Kringluna var komið sá hann að hún var yfirfull af fólki sem var að fylgja frumreglu 2: Að versla. Allir héldu á innkaupapokum. Kliður og jólatónlist var allsgnæfandi. Kringlan var vel skreytt jólaseríum, jólabjöllum, jólasveinum og auglýsingum sem sögðu: SVARTUR FÖSSARI.
Mikil mannmergð hafði safnast saman í kringum gríðarvaxið jólatré. Á toppi þess var stærsta jólastjarna sem Róbójón hafði nokkurn tímann á ævinni séð. Allir voru að versla og hlæja og taka myndir á símana sína. Róbójóni leið ekkert betur. Í raun fann hann til örvæntingar. Loks gat hann ekki hamið sig: ,,Hvað erum við að gera?! Við þurfum ekki að gera þetta! Við gætum verið heima að baka! Eða farið á sleða með krökkunum okkar! Við þyrftum ekki alltaf að vinna ef við værum ekki alltaf að versla! HALLÓ? EINHVER?!“
Enginn heyrði í honum fyrir kliðnum. Róbójón leit í kringum sig. Hann sá Cerberusa í mannmergðinni sem nálguðust hann hægt og rólega. Hann átti að fara í leiðréttingu. Hann fann svitann leka niður ennið. ,,Píp píp píp“ allsstaðar þegar kortin gengu í gegn. Honum varð litið til konu sem var við það að strauja kortið sitt, kaupandi AirPods á svörtu tilboði. Róbójón sá skammtafræðilega hættu í loftunum, eitthvað sem bæði var og var ekki á sama tíma. Það var undir honum komið hver veruleikinn yrði. Á einhvern óútskýrðan máta skynjaði Róbójón að hættan var fólgin í því að konan var andartaki frá því að strauja kortið sitt.
,,STANSAÐU BORGARI!“ ,,EKKI RENNA KORTINU!“
Of seint. Hámarki neyslu var náð.
————–
Kortið gekk í gegn og greiðslufærslan ýtti veruleikanum yfir í sérstæðuna. Neyslu var gefið áþreifanlegt form þegar jólastjarnan féll inn í sjálfa sig, skapandi svarthol úr óendanlegum efnisþéttleika efnishyggju. Samstundis riðu þungar og djúpar drunur yfir Kringluna þegar róteindir sjálfra atóma hennar tóku að tætast í sundur. Glansandi glerrúðurnar sprungu og urðu að regni þúsunda hnífa, gólfflísar rifnuðu upp og neytendur gátu sér enga björg veitt þegar þeir voru togaðir inn í sjálfan óendanleikann. Jötunngrip Róbójóns brást og síðasta hugsun hans, áður en hann sogaðist inn í svartnættið, var: ,,Ef ég hefði aðeins átt meiri tíma.“
————–
Í tómi himnanna sveif stórkostleg blá perla. Þar ríktu einföld lögmál. Sólin reis í austri og settist í vestri. Börn vöknuðu full tilhlökkunar. Þau skoðuðu villtu laxana og háu fossana. Þau hlupu á ströndinni og köstuðu sér í faðm foreldra sinna. En ekki lengur. Óendanlegur efnisþéttleiki neyslu hrifsaði allt í gapandi gin sitt. Fossana. Laxana. Græn engi. Áhyggjulausar stundir. Sjálfan tímann. Og lítil börn sem aldrei verða menn.