Eftirstöðvar: 2,9 milljónir

Núna er lánið komið niður fyrir 3 milljónir sem þýðir að ég hef náð fjárhagslega markmiðinu mínu fyrir árið 2019.

Þegar ég lít til baka yfir síðustu 10 ár hefur ótrúlega margt breyst í mínu lífi. Ég kláraði háskóla, eignaðist tvö börn, keypti hús, fór út á vinnumarkaðinn, kvaddi ættingja sem fóru í annan heim og eignaðist marga nýja vini og vinnufélaga. Ég er lánsamur að halda heilsu og fá tækifæri til að vinna í mínum markmiðum. Ég er lánssamur að eiga góða foreldra og vini sem hafa stutt við bakið á mér. Ég hef notið margra forréttinda sem eru ekki öðrum gefin.

Einhversstaðar á leiðinni síðustu ár kviknaði áhugi minn fyrir því að eiga peninga til að öðlast meira frelsi og tækifæri, í stað þess að nota þá til að kaupa dót og drasl. Eflaust kemur sá áhugi úr mörgum áttum en ég man eftir einu atviki sérstaklega sem veitti mér innblástur.

Ég var nýfluttur til Reykjavíkur til að stunda nám. Ég átti varla krónu. Aleigan mín var gamall sparireikningur sem innihélt fermingarpeninga og annað tilfallandi sparifé, varla meira en 200 þúsund krónur. Ég man að mér fannst helvíti fúlt að þurfa að klípa af þessum peningum til að borga leigu. Það var engin glæsihöll sem ég var að borga leigu af, eldgömul 25 fermetra stúdíóíbúð. Ég man að tilfinningin og hugsunin var sú að nú var að duga eða drepast. Ég þyrfti að standa mig í skólanum og krafsa mig út úr þessari holu.

Einn daginn hjólaði ég, þessi fátæki námsmaður, í bankann til að ganga frá erindum. Á meðan ég beið eftir gjaldkera tók ég eftir stelpu sem var í sama áfanga og ég í skólanum. Hún var með móður sinni að ræða við gjaldkera. Ég heyrði ágætlega hvað fór þeirra á milli, án þess að ég stæði á hleri. Ég heyrði stelpuna spyrja um stöðuna á reikningnum sínum. Gjaldkerin svaraði: ,,Ein milljón, sjö hundruð og…“

Eins barnalegur og ég hlýt að hafa verið á þessum tíma þá varð ég svolítið undrandi. Þetta ætti ekki að hafa komið mér á óvart, að stelpa á mínum aldri ætti vel yfir milljón í sparifé. Vissulega veit ég í dag að margt ungt fólk sem er rétt komið yfir fermingaraldur er fjárhagslega mjög vel stætt. Hins vegar gat heilinn minn ekki hætt að smjatta á þessari upphæð, sérstaklega þar sem ég var í erindum til að láta enda ná saman. Kannski var það vegna þess að ég var landsbyggðarplebbi og þekkti bara félaga sem voru í ósköp svipaðri stöðu og ég, leigjandi litlar lundaholur hér og þar. Kannski var það vegna þess að ég vann í verslun um helgar til að eiga fyrir reikningunum. Ég varð óþægilega meðvitaður um stöðu mína miðað við stelpuna.

Þar til ég flutti til Reykjavíkur til að stunda nám hafði ég aldrei haft alvarlegar áhyggjur af peningum. Ég bjó hjá foreldrum mínum þar til ég var 19 ára, ég var ekki eyðslusamur og hugsunin mín var einfaldlega sú að maður færi í háskóla til að ná sér í gráðu og þá myndu dyr tækifæra opnast í allar áttir, þar sem hægt var að fá sómasamleg laun. Ég hafði verið barnalega einfaldur. Ég var að sjá betur og betur að lífið var ekki svona einfalt. Háskóli var engin töfralausn, ég var fátækur námsmaður og heimurinn skuldaði mér ekki neitt. Þetta var undir mér komið.

Eftir að ég hafði gengið frá mínum málum í bankanum var ég enn með hugann við ,,ríku stelpuna“. Ég hugsaði með mér: ,,Fjandinn hafi það ég get líka átt milljón.“ Kannski var það einhver hégómi sem fékk mig til að hugsa þetta. Hver sem hugsunin mín var á þeim tíma var hún þáttur í að fá mig til að breyta nálgun minni að fjármálum. Ég hætti að vera eins kærulaus með peninga. Ég safnaði og greiddi upp fartölvulán sem ég hafði fengið fyrir skólann. Í dag finnst mér sturlun að fá lán fyrir fartölvu og hef fulla samúð með þeim sem þurfa á því að halda. Ég seldi bílinn minn og tók strætó eða hjólaði í skólann. Ég hugsaði mig oftar tvisvar um.

Peningurinn sem sparaðist við þessar breytingar var svakalegur. Mér fannst ótrúlegt að svona fáar breytingar gætu umturnað fjárhagslegri stöðu minni til hins betra. Ég hélt áfram að vinna í versluninni um tíma en í raun þurfti ég ekki að vinna þar lengur bara til að ná endum saman. Þá fann ég í fyrsta skipti hvað peningar geta keypt: Tíma. Tækifæri. Frelsi. Ég var ekki eins barnalegur lengur. Ég lærði mína lexíu.

Síðan þá hef ég haldið áfram á sömu braut. Ég hef verið heppinn á marga vegu en ég trúi því líka að ég hafi skapað mér tækifæri. Nokkru síðar átti ég loksins milljónina eins og stelpan í bankanum. Ég hugsaði með mér: ,,Þetta gat ég. Landsbyggðarplebbi úr verkamannastétt.“ En á meðan milljónin safnaðist upp hafði hugsun mín breyst. Áður var það illa ígrundaður hégómi sem fékk mig til að spara, núna sá ég tækifærin sem peningar gátu keypt.

Langi þig að kaupa tíma, tækifæri og frelsi, þá getur þú það líka. En Háskóli er enginn frípassi. Ekki heldur að eiga vel stæða foreldra. Ekki að vera vel tengdur. Ekki að vera fæddur með snilligáfu. Og ekki að vinna lottó. Það er sama hversu mörgum tækifærum lífið kastar í þig ef þú kannt ekki að nýta þau. Þú getur átt allan peninginn í heiminum en hann kann samt ekki að vera nóg ef þú veist ekki hvað þú vilt, andlaus og froðufellandi neytandi sem kastast úr einni útsölu í aðra.

Ég fór nýlega í Góða Hirðinn og keypti þar bók (á 100kr). Í henni rakst ég á þessa setningu: ,,Það er erfitt að sjá hver er snillingur í raun, það er auðveldara að sjá hver hefur drifkraft, sem kann að vera mikilvægara til lengri tíma litið.“ -Congo eftir Michael Crichton-

Drifkraftur toppar allt annað. Ekki ríkir foreldrar, snilligáfa eða silfurskeið. Þú hefur viljann til að bæta þig og lætur engan stöðva þig.

Mig skortir ekki neitt

ég fer mína eigin leið

þarf ekki silfurskeið

ég er á grænni grein

-Úlfur Úlfur-