Margir foreldrar virðast vera á þeirri skoðun að peningar séu fyrirbæri sem koma börnum ekki við. Barnæskan er of saklaus og fullorðinsárin koma of fljótt, með allar sínar fjárhagslegu skuldbindingar. Við vitum þó að börn eru klók og eru því tortryggin þegar þau sjá foreldrana strauja kreditkortin en segja þeim hálftíma seinna að það séu ekki til peningar. Suð í búðum er afgreitt fljótt með kunnuglegum frösum: ,,Ekki núna!“ ,,Það er ekki til peningur fyrir þessu!“ ,,Hættu þessu suði!“
Skammir og refsingar flokkast undir neikvæða styrkingu. Þessir frasar draga kannski úr suði tímabundið því barnið lærir að ef það suðar um dót fær það skammir frá mömmu og pabba, sem er óþægilegt og sárt. Slík neikvæð styrking gerir hins vegar ekkert til að kenna börnum á gildi peninga. Sem er rót vandans. Það eru góðar líkur á því að suð í búðum sé einfaldlega afleiða þess að börnin hafa ekki fengið tækifæri til að læra á peninga.
Ef við foreldrarnir kennum börnunum okkar ekki um peninga munu aðrir gera það. Yfirleitt einhverjir sem ásælast peningana þeirra. Nóg er af þeim. Þeir munu kenna þeim að með peningum geta þau keypt æðisleg leikföng, sælgæti, tölvuleiki og flott föt. Þeir munu líka sýna þeim að krakkar sem eyða peningum í vörunar þeirra verða vinsælir. Er skrýtið að börn trúi áróðrinum ef við gerum ekkert til að fræða þau?
Við viljum börnunum okkar það besta. Ég trúi því að gott fjármálalæsi sé eitt besta veganestið sem við foreldrar getum gefið þeim. Hvernig fullorðin manneskja verður barn sem kann ekki að fara skynsamlega með peningana sína?
Fullorðin manneskja með lélegt fjármálalæsi vinnur alla ævi fyrir aðra, hvort sem henni líkar betur eða verr. Hún þrælar fyrir endalausan yfirdrátt og hugsunarlausa ofurneyslu. Hún finnur aldrei hugarró í stanslausu höfrungahoppi og samkeppni við vini, nágranna og ókunnuga sem hún telur sig þurfa að komast fram úr. Hún kann að verða fjárhagslega háð ofbeldisfullum maka sem ber enga virðingu fyrir henni. Skortur á fjármálalæsi fækkar valmöguleikum og getur kramið drauma.
Vill einhver barninu sínu slíka framtíð? Því trúi ég ekki. Spurningin er þá hvernig er hægt að stuðla að góðu fjármálalæsi og byggja grunninn fyrir framtíðina? Eflaust eru til óteljandi aðferðir en ég held að þær bestu eigi það sameiginlegt að hrósa, fá barnið til að hugsa gagnrýnt og bera ábyrgð á eigin peningum.
Ég á 5 ára strák og ég hef komið af stað peningakrukku fyrir hann. Þetta er skemmtileg glær krukka með hundraðköllum og það besta er að hann ræður sjálfur yfir henni. Hann fær reglulega peninga í krukkuna og fær að sjá þegar ég bæti í hana. Þetta finnst mér mikilvægt, að hann sjái peningana. Þeir eru eitthvað raunverulegt og áþreifanlegt. Eitthvað sem hægt er að fá en líka hægt að láta frá sér. Ef hann langar í eitthvað út í búð segi ég honum að það sé sjálfsagt ef hann á sjálfur peninga fyrir því. Hann má taka peningakrukkuna sína með og kaupa það. Þetta er oftast nóg til að stöðva allt suð. Annaðhvort langar hann nógu mikið í hlutinn til að kaupa hann fyrir sína eigin peninga eða, sem oftar er, hann lætur hlutinn eiga sig. Í seinna tilfellinu held ég að hann sé aðeins að biðja um hluti sem honum finnst vera áhugaverðir en myndi fljótlega missa áhugann á. Það er ágætt því börn í dag eiga heilu fjöllin af leikföngum.
Í augnablikinu finnst mér þetta vera nægileg kennsla. Hann lærir best á því að sjá um þetta sjálfur, hann sér að peningar koma en þeir geta líka farið. Það er því mikilvægt að vanda valið. Hann lærir að hann getur keypt sér hvað sem er en hann getur ekki keypt allt sem er. Hann hefur áttað sig á að ef hann kaupir margt smátt getur hann ekki keypt sér eitt stórt (lego hulkbuster) dót, eins og krakkar vilja oft. Hann er því stundum að geyma peningana og veit að það þarf tíma og fleiri peninga til að kaupa stóra og flotta dótið.
Ég forðast að gagnrýna það sem hann vill kaupa sér. Hann á peningana, ekki ég. Ég reyni hins vegar að hrósa honum vel fyrir það þegar hann hefur safnað miklu í krukkuna. Hvað kallast þetta úr sálfræðinni? Jákvæð styrking. Ég vil að hann upplifi jákvæða hvatningu fyrir að spara peninga. Ekki vegna þess að ég er að reyna móta hann í Jóakim Aðalönd heldur vegna þess að ég elska hann og vil honum vel í lífinu.