Eftirstöðvar: 7,0 milljónir

Í hvert sinn sem lánið hefur verið greitt niður um milljón krónur þá fagna ég með fjölskyldunni og við förum saman út að borða. Í hvert skipti sem við gerum það reyni ég að muna hversu lánssamur ég er að geta fagnað þessum áfanga, því það er ekki sjálfsagt. Þó að mikið sé til í gamla máltækinu ,,hver er sinnar gæfu smiður“ er það aðeins hálfur sannleikurinn. Því gæfan er, að mínu mati, ekki eingöngu okkar eigin smíði. Ertu vel menntaður? Í góðu og vel launuðu starfi? Í góðu formi og góðu sambandi við vini og fjölskyldu? Ertu alltaf á beinu brautinni?

Það er ekki eingöngu þér sjálfum að þakka.

Ertu ekki sammála? Íhugaðu þá hvort eftirfarandi eigi við þig:

  1. Þú átt heima á Íslandi, landi með ein bestu lífskjör í heiminum, lága tíðni ungbarnadauða, laust við stríð og hungursneið.
  2. Þú átt foreldra sem sýndu þér kærleik, beittu þig ekki ofbeldi og gáfu þér almennt gott uppeldi. Gátu stutt þig í námi og hvöttu þig áfram. Eru jafnvel sjálf vel menntuð og gátu því gefið þér góð ráð til að ná langt í námi.
  3. Þú ert heilbrigð/ur, laus við sjúkdóma og/eða fötlun sem hamla þér í lífinu.
  4. Þú átt góða vini sem beittu þig ekki andlegu ofbeldi, leiddu þig ekki á braut glæpa eða misnotkunar á áfengi og fíkniefnum.
  5. Þú hefur ekki verið beittur kynferðislegu ofbeldi.

Þetta eru bara nokkur dæmi sem mér dettur í hug en eru augljóslega þættir sem hafa mikil áhrif á velgengni í lífinu. Þetta eru líka þættir sem erfitt eða ómögulegt er að hafa stjórn á. Þú velur ekki í hvaða landi þú fæðist, hverjir foreldrar þínir eru eða hvort þú haldir alltaf heilsu. Þess vegna er góð regla að minna sig á að stundum getur lífið verið happdrætti og ef þú nýtur velgengni máttu þakka mörgu fleira en bara sjálfum þér.

Hvernig nýtum við velgengni? Notum við hana bara til að strjúka okkar eigin sjálfi (egó) og setja okkur á ímyndaðan háan stall? Eða notum við velgengni til að láta gott af okkur leiða? Mundu að ef þú nýtur velgengni getur þú notað hana til að bæta heiminn. Þú getur hjálpað fólki sem fæddist ekki á Íslandi og býr við stríð og hungursneið. Þú getur verið foreldrið sem veitir gott uppeldi. Þú getur verið vinurinn sem er alltaf til staðar og tilbúinn að veita hjálparhönd. Þú getur oft hjálpað öðrum að vinna þessa þætti sem flokkast undir happdrætti í lífinu. Örugglega oftar en þig grunar. Bara eitt vel valið hrós getur breytt lífinu.

Og hvað ef þú telur þig ekki hafa unnið í happdrætti lífsins? Hvað ef þú fæddist í fátækt og áttir lélega vini eða foreldra? Sumu í lífinu höfum við enga stjórn á en það er alltaf eitthvað sem við getum haft áhrif á og breytt. Það er ekki alltaf auðvelt en það er betra en að benda bara á glötuðu spilin sem manni voru gefin. Hugsaðu með þér hvað það er sem þú hefur stjórn á. Þú getur haft áhrif á viðhorf þitt til slæmra hluta sem henda þig. Þú getur valið að koma vel fram við náungann. Þú getur reynt að gera þitt besta þrátt fyrir allan skítinn í lífinu. Það er fátt sem hjálpar minna en að dreifa skít þegar þú ert umkringdur skít.

Þegar uppi er staðið snýst þetta um að koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig, hvort sem þú hefur fengið góð spil eða ekki.

One thought on “Baráttan við lánið #9

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s