Undanfarin ár hefur óhugnarlegt sníkjudýr lagt land undir fót og er orðin fastagestur á flestum íslenskum heimilum. Þetta sníkjudýr þrífst vel í hreinu umhverfi og er þá sama hversu vel allt glansar, það þarf að grípa til annarra ráða en hreinlætis til að ráða niðurlögum hennar. Þessi litla padda berst inn á heimili með nýjum bílum, heimilistækjum, eldhúsinnréttingum, hönnunarvörum og snjallsímum meðal annars. Oftast er hún gott sem ósýnileg og það er yfirleitt ekki fyrr en fólk áttar sig á því að hún er orðin að vandamáli sem að fólk fer fyrst að taka eftir henni. Við tókum viðtal við Hákon Jarl Borkason, meindýrafræðing, til að vita meira um þessa plágu og hvernig best er að ráða niðurlögum hennar:

Takk fyrir að taka þér tíma til að fræða okkur betur um þennan vágest Hákon. Til að byrja með, hvað getur þú sagt okkur um helstu áhrif auraskottunnar á okkur mannfólkið? Er þetta hættulegt sníkjudýr?

Hákon: Ég fagna hverju tækifæri til að ræða um þennan óskapnað sem auraskottan er. Nei, auraskottan er ekki beint hættuleg en hún getur dregið verulega úr lífsgæðum okkar og haft slæm langtíma áhrif á heilsuna. Einkennin geta verið fjölmörg og er auraskottan meðal annars þekkt fyrir að vera valdur að háum blóðþrýstingi og hjartsláttartruflunum vegna aukinnar streitu. Þar með fylgir að hún getur einnig rýrt gæði svefns, ýtt undir magasár og aukið verkjaupplifun hjá fólki með króníska verki. Langvarandi nálægð við auraskottuna getur á endanum haft mjög neikvæð andleg áhrif og verið orsakavaldur þunglyndis og mikillar reiði, sem getur leitt af sér verri samskipti við makann og börnin.

Þekkir þú einhver slík tilfelli hér á landi?

Hákon: Hvort ég þekki. Margir átta sig ekki á því að auraskottan lifir mjög góðu lífi hér á landi þrátt fyrir frekar kalt loftslag. Versta tilfellið sem ég man eftir var í Garðabæ en þar bjuggu hjón sem hringdu í mig til að meta stöðuna á heimili þeirra. Þau höfðu fundið fyrir mörgum líkamlegum og andlegum einkennum og töldu sig hafa séð einhverjar auraskottur. Þetta var stórt og myndarlegt hús, ég giska um 220 fermetrar og mjög nýlega byggt. Engin merki um rakaskemmdir eða lélega einangrun. Nýr háglansandi bíll í innkeyrslunni, allt stífpússað og glæsilegt innandyra. Þessi hjón voru greinilega vel stæð og það var allt svo snyrtilegt og fallegt að þig myndi aldrei gruna að auraskotta gæti lifað í þessu umhverfi.

Komstu auga á einhverjar auraskottur?

Hákon: Nú ég setti upp raunglyrnið, sem er sérstakt sjóntæki sem við notum til að koma betur auga á auraskottur. Eftir áratuga langt starf hafði ég aldrei séð neitt þessu líkt. Mér var virkilega brugðið. Það var allt morandi í skottum. Ég meina allt. Þær skriðu út úr skápunum í nýju eldhúsinnréttingunni. Sófinn og sjónvarpið… þarna höfðu þau hjónin setið kvöld eftir kvöld með auraskotturnar skríðandi allt í kring. Ekki var nýja rúmið þeirra betra, það er ekki skrýtið að svefninn sé slæmur með þessi kvikindi skríðandi á milli tánna. Við betri athugun glansaði stífbónaði bíllinn þeirra ekki svo vel, auraskottur klesstar á framrúðunni og búnar að éta sig inn í leðursætin. Meira að segja veggirnir í sjálfu húsinu, svei mér þá ef þeir voru ekki verstir. Í einu horninu var stærðarinnar bú, fölgrátt og hlaupkennt, þar sem egg auraskotturnar höfðu safnast í hnefastóra klasa og voru alveg við það að klekjast.

Hvernig er hægt að fyrirbyggja svona tjón? Á hverju nærist auraskottan?

Auraskottan á sér enga hliðstæðu í dýraríkinu. Hún nærist á skuldum. Ég segi oft: Þar sem er skuld, þar er skotta. Hún dregur nafn sitt af því að hún étur upp aura og krónur. Því hærri sem skuldin og vaxtaprósenta hennar er, því hraðar fjölgar skottan sér og því hraðar étur hún peningana þína, með tilheyrandi líkamlegum og andlegum einkennum. Hjónin í Garðabænum voru komin í afneitun gagnvart skuldastöðu sinni og áttuðu sig ekki á vandamálinu fyrr en ég leyfði þeim að setja upp raunglyrnið. Skuldastaða þeirra var orðin svo stór að fjölgun skottunnar var orðin stjórnlaus. Slímugar skuldirnar eru eins og hlaðborð fyrir skottuna. Auraskottan tekur engum rökum. Þetta er miskunnarlaust meindýr sem leggst á fólk óháð stétt eða stöðu. Það eina sem virkar er leiftursókn. Því fyrr sem þú byrjar að útrýma henni því betra.

Hvernig virkar slík leiftursókn? Hvernig er hægt að útrýma auraskottu?

Skuldaleysir. Það er eina efnið sem virkar. Og hatur. Ég veit að þeir segja að það er ekki hollt að hata en þeir hafa ekki upplifað ánægjuna sem fylgir því að kála auraskottu. Það þarf að ráðast á rótina og útrýma næringu skottunnar. Taka stóran hluta af laununum þínum og skrúbba skuldirnar í burtu með hatur í hjarta. Skrúbba og skrúbba og hlæja djúpum og hatursfullum hlátri. Ég hef aðstoðað hjónin í Garðabæ í 3 ár núna og þau eru alveg að verða skuldlaus. Líf þeirra hefur tekið stórum breytingum. Minni áhyggjur, minna stress. Minni kvíði og lægri blóðþrýstingur. Betri samskipti. Meiri ást og ljúfari draumar.

Við þökkum Hákon fyrir góða samantekt um þennan óhugnarlega sníkil á íslenskum heimilum.

2 thoughts on “Býr auraskotta á þínu heimili?

  1. Varð fyrir þessum andskota eftir að bankarnir höfðu brenglað öllu hér á landi. Allt annað eftir að þau skötuhjú Steingrímur J og Jóhanna saú til þess að við losnuðum við allar eignirna og skuldirnar. Þakka þér fyrir Steingrímur og Jóhanna þetta tók bara nokkur ár að losna við óværuna. En í raun held ég að aura skotta sé enn á þingi og býði færis.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s