Nói vaknaði við vekjaraklukkuna eins og venjulega. Hann vaknaði eins og oft áður við þá óþægilegu tilhugsun að það væri eitthvað að heiminum hans. Í raun hafði þessi hugsun plagað hann lengi og var orðin eins og flís í huga hans. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Hins vegar hafði Nói ekki tíma til að velta sér upp úr þessu, hann mátti ekki vera seinn í vinnuna.
Nói var ósáttur með margt í lífi sínu. Nói var alltaf þreyttur, yfirkeyrður af mikilli vinnu og of litlum frítíma. Nói var ekki nógu hamingjusamur og fannst sem hann hefði ekki stjórn yfir eigin lífi.
Nói ákvað að heyra í Marteini, besta vini sínum. Hann var alltaf tilbúinn að hlusta og veita góð ráð. Það var alltaf gott að tala við Martein. Marteinn bauð honum yfir í kaffi eftir vinnu.
,,Til hvers er maður að standa í þessu Marteinn? Vinna alla daga en eiga aldrei aur. Þræla sér út og eiga aldrei almennilegt frí. Dæla í sig koffíni og nikótíni til að ganga í gegnum sama kjaftæðið dag eftir dag. Ég verð að fá að slaka meira á og njóta lífsins. Þetta er bara allt svo öfugsnúið og mér finnst ég vera fastur í einhverjum furðulegum vítahring“.
,,Nói ég skil þig mjög vel, mér líður oft svona.“ Marteinn hellti kaffi í tvo bolla og gekk yfir að sófanum til Nóa. Hann rétti honum rauðan bolla með rjúkandi kaffi og sagði svo alvarlegur: ,,Nói ég hef í raun hugleitt þetta mikið sjálfur og mig langar að viðra hugmyndir mínar við þig. En mundu að ég býð þér eingöngu sannleikann eins og hann birtist mér. Ekkert annað.“
Nóa fannst eins og hann hafði heyrt þetta einhvers staðar áður en var strax áhugasamur að heyra hvað Marteinn hafði að segja. Hann fékk sér lítinn sopa af rjúkandi kaffi og fann að það hafði verið góð tilbreyting að kíkja í heimsókn til hans.
Marteinn horfði dágóða stund ofan í bollann sinn og var hugsi á svip. Svo fékk hann sér sopa, ræskti sig og sagði: ,,Nói… mannslíkaminn framleiðir meiri rafspennu en 120 volta rafhlaða og yfir 25 þúsund breskar hitaeiningar (BTU) af líkamshita. Þegar þessi mennska orka rennur saman við fyrirtæki hafa forstjórar þeirra fundið alla þá framleiðslugetu sem þeir þurfa. Það eru borgir, heilu borgirnar, þar sem manneskjur ekki eingöngu fæðast, heldur eru markvisst mótaðar. Við erum mótuð frá fæðingu til að vera góðir neytendur.“
,,Varstu að horfa á Matrix?“ spurði Nói en Marteinn hunsaði spurninguna, fékk sér annan sopa af kaffi og hélt áfram: ,,Lengi vel var ég blindur fyrir sannleikanum en eftir 20 ár í starfi sé ég hvernig samband vinnu og neyslu virkar. Ég hef séð hvernig starfsorka og tími fólks eru brædd niður og gefin fyrirtækjum í æð. Ég sé núna skelfilegu nákvæmnina á bak við þetta allt. Ég sé nú hinn augljósa sannleika.“
Marteinn glotti nú út í annað og sagði: ,,Þetta er ekki lengur eins og í gömlu vestrunum þar sem ræninginn miðar byssu á þig og öskrar ,,Peningana eða lífið!“. Í dag er enginn að öskra. Enginn að miða byssu á þig. Í dag er þér boðið sæti og forstjórinn hvíslar brosandi að þér: ,,Peningana og lífið.“
,,Hvað á ég við með þessu Nói? Peningana og lífið? Ég kem að því. Sjáðu nú til, hvað ertu með í tekjur á mánuði? 600 þúsund um það bil, ekki satt? Segjum 400 þúsund eftir skatt. 20 þúsund krónur á dag.
,,Ætli það sé ekki nærri lagi.“ sagði Nói. Marteinn hélt áfram: ,,Gott og vel og þú segist vera ósáttur því þú færð of lítinn tíma fyrir sjálfan þig. En þú lætur þig hafa það og harkar í gegnum þetta með sígarettum og koffíni. Hvað reykir þú mikið?
,,Cirka hálfan pakka á dag.“
,,Og hvað kostar pakkinn?“
,,Ætli hann sé ekki um 1200 krónur.“
,,Þá getum við gert einfaldan útreikning. Ef þú reykir hálfan pakka á dag kostar það 600 krónur á dag eða 219.000 krónur á ári. Með 20 þúsund krónur á dag vinnur þú 11 daga á ári bara til að eiga fyrir sígarettum.“ Marteinn tók annað dæmi: Skoðum svo þessa koffínfíkn, ég veit að þú elskar þetta Nocco sull því hvenær er það ekki góð hugmynd að innbyrða blóðþrýstingshækkandi sýru? Hvað drekkur þú marga á dag og hvað kosta það?
,,Ég drekk um þrjá á dag og dósin kostar 245 krónur ef ég man rétt.“
,,Þrjá á dag…“ sagði Marteinn og reiknaði í huganum: ,,það kostar þig 268.000 krónur eða 13 daga á ári. Samanlagt eru sígarettur og nocco drykkir að kosta þig 24 daga í vinnu árlega. Nú þekki ég ekki yfirmanninn þinn en gefum okkur að hann sé mjög opinn fyrir því að þú takir þér launalaust frí ef þú óskar þess. Ef þú myndir nota peningana sem annars færu í sígarettur og nocco drykki í að taka launalaust frí þá gætir þú tekið þér næstum 5 vikur í frí til viðbótar á hverju ári. Meira en heilan mánuð! Bara vegna þess að þú sleppir hálfum sígarettupakka og 3 nocco dósum á dag. Þarna er frítíminn sem þú ert að leita að.“
Nóa leið frekar óþægilega yfir því að eyða svo miklum tíma af lífi sínu í vinnunni til að eiga fyrir smáræði eins og nocco og sígó. En Marteinn var kominn í ham: ,,Nocco og sígarettur. Koffín og nikótín. Þetta eru líffræðileg fíkniefni sem þú ert orðinn háður og kosta þig 5 vikur í vinnu. 5 vikur sem annars gætu farið í meiri tíma með fjölskyldunni og vinum eða bara til að slaka á með sjálfum þér. En ef þér finnst það slæmt verður þú ekki ánægður að heyra að það eru félagslegu fíkniefnin sem ræna okkur miklu meiri tíma. Nocco og sígó eru sem dvergar við hlið hjólhýsa og lúxusbíla. Við erum tilbúin til að selja yfirmanninum sálina okkar til að ganga í augun á vinum og kunningjum okkar með tilbúnum stöðutáknum. Staða okkar í samfélaginu er sterkasta fíkniefni sem til er. En til að greiða að fullu 6 milljón króna lúxusjeppa þyrftir þú Nói að eyða 300 dögum í vinnunni. 60 vinnuvikur! Meira en ár! Við lifum kannski í 80 ár, bara kannski, og þú vilt eyða heilu ári í flottan jeppa? Og öðru ári í hjólhýsi? Og enn öðru í stærra hús en þú þarft?
Marteinn hristi höfuðið: ,,Þegar uppi er staðið eyðum við mörgum árum af okkar eina lífi í allskonar kjaftæði. Og fyrir þetta kjaftæði erum við tilbúin til að leyfa yfirmanninum okkar að hlekkja okkur við skrifborðið í stað þess að eyða tímanum með börnunum eða makanum. Og þetta er að gerast í samfélagi manna sem framleiða margfalt meira en fyrri kynslóðir, það á ekki að vera þörf á svo mikilli vinnu með skilvirkari framleiðslu en þörfin er samt sem áður til staðar því allir vilja kaupa sér dót. Þetta er það sem ég á við með peningana og lífið. Við eyðum stórum hluta af lífinu í vinnunni svo við getum fengið peninga frá fyrirtækinu. Svo förum við yfir í næsta fyrirtæki til að eyða peningum fengnum með eigin lífi. Fyrirtækin hirða hvoru tveggja á meðan við eltum snjallsíma og lúxusjeppa, til þess eins að hlekkja okkur við skrifborðið og mala gull fyrir aðra.“
,,Ég er ekki draumóramaður Nói. Ég veit vel að fólk þarf að bíta og brenna, eiga mat og lyf og föt og gott umhverfi fyrir sjálfa sig og börnin. Fólk þarf að leyfa sér að lifa. En fólk þarf ekki að eltast við draumaveröldina sem ríkasta prósentið auglýsir með stanslausum áróðri í fjölmiðlum. Þetta er hin skelfilega nákvæmni þeirra Nói. Hinn augljósi sannleikur sem ég er að sýna þér.“
Nói var farinn að velta því fyrir sér hvort Marteinn væri að reykja eitthvað sterkara en sígarettur. Marteinn starði nú í augu Nóa og sagði: ,,Þetta snýst um stjórn Nói. Neysluhyggjan hefur skapað falska draumaveröld til að hafa stjórn á okkur og breyta mannfólki í þetta:“
Marteinn sýndi honum peningaseðil: ,,Neysluhyggjan er kerfi Nói. Þetta kerfi er orðið óvinur okkar. Líttu í kringum þig og hvað sérðu? Viðskiptamenn, kennara, lögfræðinga, smiði. Þú verður að skilja að flest af þessu fólki er ekki tilbúið til að segja skilið við neysluhyggjuna. Sjálfsmynd sumra er svo algjörlega háð neyslu að þeir myndu berjast með kjafti og klóm til að verja hana. Þetta er fólkið sem ætlar að mæta þrjú hundruð sinnum í vinnuna fyrir bílinn sinn.“
,,En ekki þú gamli vinur. Vaknaðu Nói. Þá muntu loksins sjá hlekkina. Og til allrar hamingju muntu líka sjá að þú heldur á lyklinum.„