Eftirstöðvar: 6,6 milljónir

Þađ er svo mikið góðæri á Íslandi að við erum að sturlast. Sumir Íslendingar eiga svo mikið að bíta og brenna að þeir eru farnir að henda peningum. Íslendingar slappa af með Nocco og Netflix og sturlun þeirra felst í afskiptaleysi og værukærni vegna lífsstílsbólgu sem hefur smitast í heila.

Segjum að það sé útborgunardagur. Þú stoppar við í næsta hraðbanka og tekur út hundrað og fimmtíu þúsund krónur. Svo gengur þú að næstu ruslatunnu og hendir peningunum. Algjör sóun. Við erum væntanlega sammála um að þetta væri einhvers konar sturlun, að henda peningum. Þetta er þó engin skáldskapur. Fjölmargir Íslendingar stunda þetta á hverjum degi. Á matarsoun.is kemur eftirfarandi fram:

,,Forrannsókn Landverndar á matarsóun heimila í Reykjavík bendir til að a.m.k. 5.800 tonnum af mat og drykk sé hent af reykvískum heimilum árlega. Þetta samsvarar a.m.k. 4,5 milljörðum króna. Samkvæmt mælingum inn á sautján heimilum hendir hver einstaklingur um 48 kg á ári sem gerir um 150 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu.“

Enginn skáldskapur hér á ferð. Margir Íslendingar henda 150 þúsund krónum á ári beint í ruslið. Af hverju gerist þetta? matarsoun.is kemur með skýringu:

,,Neytendur kaupa of mikið, matreiða of mikið, misskilja geymsluþol matvæla, matvæli eru geymd á rangan hátt og fleira sem leiðir til mikillar sóunar og úrgangsmyndunar.“

Hættu að henda peningum. Eldhúsið er lítið fyrirtæki og þú ert forstjórinn. Þegar þú hendir mat í ruslið ertu að henda peningum í ruslið. Góður forstjóri hendir ekki peningum. Góður forstjóri lætur ekkert í fyrirtækinu fara til spillis og hámarkar gróða með því að hámarka nýtingu. Lítum á þrjár áhrifaríkar leiðir til að hámarka nýtingu matvæla: Blanda, kæla, pæla.

Blanda: Á myndinni hér fyrir ofan eru tveir skemmtilegir og ögrandi réttir sem ég eldaði nýlega til að hámarka nýtingu matvæla. Einn daginn bakaði ég pítsu og daginn eftir eldaði ég kjúklingalundir. Báða daga myndaðist afgangur og í sturlun minni var ég kominn hálfa leið að ruslafötunni þegar ég uppgötvaði að það var ekkert sem stoppaði mig frá því að blanda réttunum saman og borða kjúkling með pítsu (mynd til vinstri). Þessi aðferð var svo áhrifarík til að nýta matvæli að þegar ég átti seinna afgang af fisk og núðlum endurtók ég ferlið, setti fyrst fiskinn á diskinn og tók svo núðlurnar og setti þær á sama disk. Úr varð glænýr réttur, fiskur međ núðlum (mynd til hægri). Þetta vinnur ekki neina fegurðarsamkeppni en það er hægt ađ borða þetta, sem er það eina sem skiptir máli.

Kæla: Ég nota áhrifaríkt raftæki til að sporna gegn því að matvæli skemmist heima. Þađ heitir ísskápur. Ísskápur er tæki sem eykur geymslutíma matvæla með því að hægja á örverumyndun í matnum. Á meðan það er pláss í ísskápnum og maturinn er ekki farinn að lykta eða bragðast illa má geyma hann og borða seinna. Best fyrir dagsetningin á umbúðum er auðvitað alheimslögmál en ísskápurinn beygir þessi lögmál svo þú deyrð ekki samstundis ef þú drekkur mjólk sem var best fyrir gærdaginn.

Pæla: Sé það orðið vandamál að ísskápurinn er fullur af afgöngum og þú kemur ekki meiri mat fyrir er það vísbending um að þú ert að kaupa of mikinn mat fyrir þínar þarfir og þá þarftu að leggjast yfir innkaupalistann þinn og pæla í honum. Eða bara pæla ef þú notar ekki innkaupalista eins og ég. Fá sér kaffibolla og ræsa heilann áður en farið er í Bónus og velta hlutunum fyrir sér, vera búinn að ákveða hvað þarf að kaupa og sleppa því að kaupa óþarfa, eins og fjórða kassan af Nocco. Ákjósanlegast er auðvitað að það myndist engir afgangar, þá ertu að kaupa inn og elda hóflegt magn af mat.

Gerðust forstjóri í þínu eigin eldhúsi og þá sérðu að bara með örlítilli skipulagningu og útsjónarsemi muntu spara peninga. Ekki nóg með það, talið er að þriðjungur allra matvæla sem eru framleidd í heiminum fari til spillis og að þetta magn samsvari losun á 4,4 gígatonnum af koldíoxíði út í andrúmsloftið. Það er nærri jafn mikið (87%) koldíoxíð og vegasamgöngur losa út í andrúmsloftið á heimsvísu. Það er því til mikils að vinna, ekki aðeins fyrir fjárhagslega heilsu þína heldur einnig stærsta umhverfisvandamál okkar tíma.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s