Eftirstöðvar: 6,8 milljónir

Flestir hafa líklega heyrt um Stanford sykurpúðatilraunina (Stanford marshmallow experiment) en það er fræg rannsókn sem var gerð á sjöunda áratugnum. Í þessari rannsókn var börnum boðið að fá sælgæti að eigin vali (oreo kex, sykurpúða eða saltstöng) strax en þeim var sagt að ef þau biðu í 15 mínútur, án þess að borða sælgætið, myndu þau fá annan skammt af sælgæti. Um þriðjungi barnanna tókst að bíða i 15 mínútur og sælgætið freistaði margra svo mikið að þau lyktuðu af sælgætinu, huldu augun til að sjá ekki freistinguna eða struku sykurpúðunum blíðlega.

Nú finnst okkur flestum tilhugsunin um börn sem berjast við löngunina í að borða sælgætið svolítið spaugileg og krúttleg. Við fullorðna fólkið hefðum auðvitað vit á því að bíða í fáeinar mínútur ef okkur skyldi langa í meira sælgæti. Raunin er hinsvegar sú að fullorðið fólk klikkar oft á sykurpúðatilrauninni. Mjög oft. Hún birtist okkur bara sem eitthvað annað en sælgæti, til dæmis sem peningar. Einnig nær freistingin oft yfir lengra tímabil, ekki bara 15 mínútur heldur marga mánuði eða ár. Richard Thaler, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, gerir þessu ágætis skil í bók sinni Misbehaving.

Í bókinni heldur Thaler því fram að tilfinning okkar mannfólksins fyrir tapi og gróða verði lélegri eftir því sem umrætt tap eða gróði er fjær okkur í framtíðinni. Hann segir: ,,Sú ánægja sem við gætum notið eftir 10 ár er mikið óáhugaverðari heldur en sú sem við getum notið í dag.“ Hann talar í þessu samhengi um ,,gallaða sjónauka„. Til að koma auga á eitthvað í fjarlægri framtíð er gott að hafa góðan sjónauka sem sér framtíðina skýrt og greinilega. Hins vegar er ekkert okkar með svo góðan sjónauka, sem sér framtíðina eins og hún er. Við erum því líklegri til að taka ákvarðarnir sem veita okkur ánægju strax eða í mjög náinni framtíð í stað þess að taka ákvarðarnir sem við fáum ekki að njóta fyrr en eftir 10 ár. Sum börnin í sykurpúðatilrauninni sáu eingöngu sælgætið í núinu með sínum sjónaukum og áttu þau mjög erfitt með að ,,koma auga á“ viðbótarskammtinn af sælgæti sem beið þeirra í framtíðinni. Á sama hátt sjá margir fullorðnir flatskjáinn í núinu, sem er beint fyrir framan þá í Elko, og geta með engu móti ,,komið auga á“ margar milljónir sem bíða þeirra í framtíðinni ef þeir greiða niður skuldir. Þessi tilhneiging mannsins er mjög skiljanleg í ljósi þess að við höfum þróast til að lifa af í harðneskjulegu umhverfi í mörg þúsund ár, þar sem matur og önnur lífsgæði voru af mjög skornum skammti og því hjálpaði að grípa tækifærin strax.

Thaler fjallar einnig mikið um mannlegan eiginleika sem má kalla tapfælni (loss aversion). Það virðist sem hugsanlegt tap hafi mun sterkari áhrif á okkur mannfólkið heldur en hugsanlegur gróði. Thaler kemur með skemmtilegt dæmi um þetta. Úrtak manna þurfti að dæma um hvort þeim fyndist eftirfarandi ásættanlegt eða ósanngjarnt:

Fyrirtæki er að skila litlum hagnaði. Það er staðsett í samfélagi í efnahagslegri lægð með nokkuð hátt hlutfall atvinnuleysis en enga verðbólgu. Margir vilja fá að starfa fyrir fyrirtækið. Fyrirtækið tekur þá ákvörðun að lækka laun um 7% á þessu ári.

38% þátttakenda töldu þetta ásættanlegt en 62% sögðu þessa ákvörðun vera ósanngjarna. Thaler kemur svo með dæmi til samanburðar:

Lítið fyrirtæki er að skila litlum hagnaði. Það er staðsett í samfélagi í efnahagslegri lægð með nokkuð hátt hlutfall atvinnuleysis og 12% verðbólgu. Fyrirtækið tekur þá ákvörðun að hækka laun aðeins um 5% á þessu ári.

78% þátttakenda töldu þetta ásættanlega ákvörðun og 22% fannst þetta vera ósanngjarnt. Í báðum dæmum er kaupmáttur starfsmanna fyrirtækisins óbreyttur en viðbrögðin eru gjörólík. Við upplifum flest skerðingu á launum sem tap og því ósanngjarna ákvörðun hjá fyrirtækinu en það að laun haldi ekki í við verðbólgu er talið ásættanlegt á meðan launin skríða áfram upp, sem við upplifum sem einhvers konar gróða. Bókin hans Thaler er mjög skemmtileg og kemur með fjölmörg dæmi um órökréttar ákvarðarnir sem fólk tekur.

Þessi tvö fyrirbæri sem Thaler nefnir, ,,gallaðir sjónaukar“ og ,,tapfælni“ vinna saman að því að letja fólk til að borga niður skuldir eða spara. Gallaði sjónaukinn sér ekki langt í framtíðina og gerir okkur blind fyrir þeim peningum sem við spörum við að greiða niður lán. Tapfælnin gerir þetta svo erfiðara því ef þú borgar 100 þúsund krónur inn á lánið þitt kanntu að upplifa það sem svo að peningarnir séu tapaðir. 100 þúsund krónur fara úr vasa þínum í óþreifanlega og ósýnilega skuld og þú færð ekkert í hendurnar í staðinn. 100 þúsund krónur af launum þínum ,,glataðar“? Það stingur.

Ég tel að ein lausnin við þessum ,,rökleysum“, ef svo má segja, sé einmitt að gera langtíma hagnaðinn sýnilegan og ,,laga sjónaukann“. Það sem gaf mér mikla hvatningu þegar ég byrjaði að greiða inn á húsnæðislánið mitt var þegar góður vinur minn benti mér á reiknivél Landsbankans sem metur áhrif umframgreiðslu á lán. Hér er ég búinn að setja upp dæmi í reiknivélinni um 30 milljón króna lán með 4,7% vexti, 2,3% verðbólguspá og 100 þúsund króna mánaðarlega aukagreiðslu:

Samkvæmt þessum útreikningi sparar viðkomandi um 28 milljón krónur. Hann er einnig 10 árum fljótari að greiða upp lánið, klárar það á 20 árum.

En burt séð frá sparnaðinum, finnst þér ekki glatað að vera með 250 þúsund króna greiðslubyrði á húsnæðisláni?

Ekki þegar ég horfi á myndina og sé að áður en lánstímabilið er hálfnað verður mánaðarleg greiðslubyrði í raun minni heldur en í dæminu þar sem því er sleppt að greiða aukalega á lánið.

Þessi útreikningur hjálpar mér að laga sjónaukann og sjá í land. Tapfælnin er yfirbuguð því að ég sé augljósan hagnað í framtíðinni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s