Eftirstöðvar: 6,7 milljónir

Nú nálgast jólin og þá verður metsala á eftirsóttustu vöru í heiminum, draumum manna. Hlutir sem þú vissir ekki að væru til en verður að eignast birtast á ótrúlegu afsláttarverði. Já, þú átt fullkomlega góðan ísskáp en þú vissir ekki að það er til ísskápur með innbyggðum myndavélum og risavöxnum snertiskjá. Þú smellir á hlekkinn og þig byrjar að dreyma: ,,Hann er svo fallega hannaður og myndi passa svo vel inn í eldhúsið okkar. Ég myndi aldrei gleyma því hvað er til í ísskápnum heima, myndavélarnar senda mér mynd í símann, svo ég sé alltaf hvað vantar. Snertiskjárinn er auðvitað snilld, ég get spilað tónlist á meðan ég elda og það sem er auðvitað mikilvægast… vinir mínir sjá hvað ég á ótrúlega æðislegan ísskáp.“

Þú hugsar ekki meira um ísskápinn í bili og ferð að sinna skyldum þínum. Daginn eftir birtist auglýsing fyrir ísskápinn á facebook. Þú hugsar: ,,Þetta er auðvitað fáránlega flottur ísskápur en kannski í dýrari kantinum fyrir jólagjöf“. Svo birtist auglýsingin aftur næsta dag. Þar næsta aftur og svo aftur og aftur og… á endanum stingur þú upp á því við makann að þið kaupið ísskápinn sem sameiginlega jólagjöf. Honum/henni lýst frábærlega á hugmyndina en segir eins og þú að þetta sé mikið dýrari jólagjöf en þið höfðuð reiknað með. Í raun er ekki til peningur fyrir henni. Þið ákveðið að salta þetta og á meðan birtast auglýsingarnar áfram. Eftir nokkra daga hefur ykkur ekki dottið neitt betra í hug og þið ákveðið að láta bara vaða, taka bara smá yfirdrátt. Þið reddið þessu. Þið kaupið bara litla afmælisgjöf á næsta ári og fækkið heimsendum pítsum. Þetta reddast alltaf.

Þú ferð út í næstu raftækjaverslun og tekur upp kreditkortið. Þetta fallega kort. Djásnið þitt. Gyllt letrið glansar í ofbirtu verslunarinnar. Þú straujar kortið. Einhver rödd hvíslar að þér: ,,þið eigið þetta skilið…„. Draumurinn er seldur.

Þetta var svokölluð Lánadrottinsaga. Í upphafi vissir þú ekki að þessi ísskápur væri til. Þú þurftir hann ekki í raun. Nokkrum dögum síðar ertu búinn að kaupa hann fyrir lánsfé sem þarf að greiða til baka með vöxtum. Hér er það sem gerðist: Þú fórst á facebook og facebook fylgdist með öllu sem þú gerðir. Facebook birti þér svo auglýsingar til að hafa áhrif á hugsanir þínar og ákvarðanir og hjálpa fyrirtækjum að selja vörur sínar. Eftirfarandi tilvitnun er áhugaverð í þessu samhengi:

,,Þegar hann (Sauron) setti upp Hringinn eina gat hann fylgst með öllu sem aðhafst var með hinum hringunum og stjórnað öllum hugsunum og ákvörðunum þeirra sem þá báru.“

Þessi tilvitnun er úr bókinni Silmerillinn eftir J.R.R.Tolkien og minnir mig óþægilega á mátt facebook. Bætum svo auðveldu aðgengi að lánsfé með kreditkortum við áhrifamátt facebook og þá ertu búinn að skapa eitthvað sem spilar með veikleika fólks úr öllum stéttum þjóðfélagsins:

„Auðveldara var að ánetja Mennina. Þeir sem notfærðu sér þá Níu hringi sem þeim var útbýtt urðu voldugir um sína daga, konungar, seiðskrattar og stríðskappar. Þeim hlotnaðist sigurfrægð og ógrynni auðæfa, en þau urðu þeim að falli. Þeir öðluðust að því er virðist einhvers konar óstöðvandi líf, sem hinsvegar varð þeim óþolandi kvöl.“

-Silmerillinn eftir J.R.R.Tolkien-

Sigurfrægð og ógrynni auðæfa? Er það ekki draumur flestra manna? Þá er gott að eiga kreditkort. Kreditkortið getur látið drauma þína rætast og veitt þér auðvelt aðgengi að ,,ógrynni auðæfa„. Hlutirnir sem þú kaupir (t.d. myndavélaísskápur) geta veitt þér eins konar ,,sigurfrægð“ í augum vina og fjölskyldu, eins yfirborðskennd og slík frægð kann að vera. Hins vegar kemur að skuldadögum. Yfirdrátturinn fer að stýra hegðun þinni og hafa áhrif á hamingju þína. Yfirdrátturinn getur orðið að ,,óþolandi kvöl„. Sumir verða jafnvel algjörlega háðir lánsfé til að láta verksmiðjuframleiddu drauma þeirra rætast og verða að fjárhagslegum nazgúlum, jafnvel þó tilgangur kaupanna sé að gera gott við vini og fjölskyldu:

„Hver á fætur öðrum, fyrr eða síðar, eftir meðfæddum styrk og eftir því hversu góður eða slæmur tilgangur þeirra hafði verið í upphafi, urðu þeir þrælar undir ánauð hringsins sem þeir báru og gjörsamlega á valdi Hringsins eina sem Sauron bar á fingri sér.“

Facebook og kreditkort og Hringadróttinsaga? Þetta hljómar allt hlægilega. Jafnvel fáránlega, ekki satt? Þá spyr ég hvort er fáránlegra; þessar samlíkingar við Hringadróttinsögu eða sú staðreynd að einmitt á þessari stundu gengur flest fullorðið fólk brosandi um með gullletruð plastspjöld sem hjálpar þeim að eyða peningum sem það á ekki? Ég spyr því mér finnst hið síðarnefnda hámark fáránleikans. Þú mátt vera viss um að tilgangur auglýsinga og kreditkorta er ekki til að gera lífið þitt, fjölskyldu þinnar eða vina hamingjuríkara. Það er fyrst og fremst til að taka frá þér peningana þína og þjóna hagsmunum þeirra sem selja vörurnar og lána fé. Láttu því ekki blekkjast:

,,En Álfarnir létu ekki blekkjast svo auðveldlega. Strax og Sauron dró Hringinn eina á fingur sér, urðu þeir hans varir; þeir þekktu hann og gerðu sér grein fyrir því að hann yrði meistari þeirra allra og næði yfirráðum yfir öllu sem þeir smíðuðu. Reiðir og skelfdir tóku þeir hringa sína strax ofan.“

-Silmerillinn eftir J.R.R.Tolkien-

Enginn á þig. Þú þarft ekki að gerast þræll lánadrottna. Viljir þú spara þér stórfé og losna undan ánauð yfirdrátta skaltu slökkva á facebook, taka upp kreditkortið þitt og fylgja ráðum Elronds…
284f27f177038af0e8f250dfd420389622f67b99671c1dc50fea54607ecc9157

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s