Þegar ég var barn fóru krakkarnir í götunni út í móa í allskonar leiki. Feluleiki, eltingaleiki og stríðsleiki. Undir kvöld yfirgáfum við barnavígvöllinn og fórum heim í kvöldmat, skítugir og skrámaðir. Eftir kvöldmat var stundum baðtími og móðir mín setti sápustykki í þvottapoka og skrúbbaði af mér stríðssárin.

Svo gleymdust sápustykkin. Í dag hafa fljótandi sápur tekið yfir og allir lykta af hunangi eins og egypskir sólkonungar.

Ég hafði næstum bætt fljótandi handsápu með hunangsilmi í bónuskörfuna þegar ég rak augun í draug úr fortíðinni, sápu-stykki. Samstundis fékk ég flashback og mundi eftir baðherberginu hjá ömmu sem notaði alltaf sápustykki og hundsaði allt nýaldar hunangssápu kjaftæði. Hún var líka með segul á ísskápnum sem sagði: ,,Árangur er besta hefndin“.

Kannski er árangur líka allir litlu hlutirnir í lífinu, eins og að búa til nesti eða nota sápustykki. Ég keypti tvö sápustykki og ákvað að gera tilraun og athuga hvort þau endast lengur en fljótandi sápurnar. Og svarið er já. Ójá. Sápustykki eru málið.

Fyrsti hluti tilraunarinnar var að athuga hversu lengi flaska af vel ilmandi nýaldar hunangsmjólkursápu endist. 500 ml flaska endist fjölskyldunni (2 fullorðnir og 2 börn) í 41 dag. Flaskan kostaði 198 krónur og dagleg sápunotkun kostaði okkur því 4,8 krónur. Minna en fimmkall, ekkert til að missa svefn yfir.

Eða hvað? Næst var að athuga hversu lengi 100 gramma sápustykki endist. Eitt sápustykki endist minni fjölskyldu í 72 daga! Stykkjaverð er 97,5 krónur svo að dagleg notkun kostar okkur 1,3 krónur. Þú getur því sparað 3,5 krónur daglega þegar þú notar sápustykki í stað gelsápu.

Sápustykki hefur greinilega yfirburði yfir fljótandi sápu. Og samt sem áður sé ég þau næstum aldrei notuð lengur. Hér er þessi frábæra uppfinning, langtum ódýrari, en enginn notar hana því allir vilja baða hendur sínar í fljóti úr mjólk og hunangi.

Það er kominn tími til að hvíla vel lyktandi plastflöskurnar og bjóða gömlum vin aftur inn á heimilið. Árangur byrjar með sápustykki.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s