Oft heyrir maður sagt að margur verði af aurum api. Þessu munnmæli er kastað fram þegar talað er um efnamikla eða níska menn og ber þá að skilja það sem svo að þeir sem eigi peninga lifi í einhvers konar synd eða hafi látið peningana spilla sér. Í mörgum tilfellum er þetta alveg hárrétt. Það sem fáir vita hins vegar er að það hafa alltaf verið til 2 undirtegundir auraapa. Já, það er rétt, auraapar skiptast í 2 mjög ólíkar undirtegundir, það eru kulapar og bálapar. Það er því vissara að vita hvers konar auraapa um er að ræða þegar einhver er sagður verða af aurum api. Skoðum þessar 2 undirtegundir aðeins nánar.

Kulapar

  • Þetta eru mjög nískir auraapar sem sitja fast á hverjum eyri. Þegar þeir þurfa að gefa frá sér peninga líður þeim eins og þeir hafi verið stungnir í frosið hjartað. Eina markmið þeirra er að verða sífellt ríkari og reisa sér hærra hásæti en allir aðrir, svo þeir megi horfa niður á almúgann úr íshöllunum sínum. Þeir eru bæði eigingjarnir og sjálfsmiðaðir. Þeim hugnast ekki að láta peningana sína verða neinum til góðs. Hr. Skröggur úr Jólaævintýri Charles Dickens er gott dæmi um slíkan auraapa. Við þekkjum þessa manngerð. Hún er sú sem flestir hugsa um þegar sagt er að einhver verði af aurum api.

Bálapar

  • Þetta er önnur tegund auraapa sem sjaldnar er rætt um. Þeir eru samt jafnmiklir auraapar fyrir því. Þeim stendur óbeit af kulöpum og minna þá reglulega á að þeir taka peningana ekki með sér í gröfina. Fyrir þeim er dyggð að eyða. Að eiga peninga er allt að því synd. Þegar þeir eignast peninga gera þeir því aðeins eitt. Þeir brenna þá alla! Þeir breytast í rauðglóandi górilluskrýmsli og öskra EYÐA EYÐA EYÐA. Öfugt við kulapana gefa þeir kannski eitthvað af peningunum sínum, nýtt hjólhýsi handa mömmu og pabba, flatskjár handa stóra bróður. En 90% af peningunum fer í hömlulaust og óstöðvandi eyðslubál fyrir sjálfan sig. Nýr bíll, 3 utanlandsferðir á hverju ári, stærra hús, meira af öllu. Þeir kaupa og kaupa en fá aldrei neyslufullnægingu. Þegar uppi er staðið eru þeir jafn eigingjarnir og sjálfsmiðaðir og kulaparnir.

    maxresdefault_tdrn
    EYYYYYYÐA

Annar vegar er það að eyða engu, hins vegar að eyða öllu. Hvoru tveggja er jafn apalegt.

Þriðji apinn

Ó, ég var næstum búinn að gleyma. Það er til þriðja undirtegund auraapa. Þessi tegund býr á skógi vaxinni paradísareyju, þar sem hvorki er of heitt né kalt. Hér lifir auraapinn í jafnvægi við umhverfi sitt. Eyjan lyktar öll notalega af vanillu, hljómfagur fuglasöngur ómar um allt, trjátopparnir mynda þak svo langt sem augað eygir og einstaka skínandi sólstafir ná þar í gegn og brotna í þúsund regnboga í dögginni. Þetta er auðvitað paradísareyjan Millagaskar. Hér fær sálin frið, enda hafa aparnir á þessari eyju einangrast frá öfgakenndum lífsháttum kulapa og bálapa. Í einangrun sinni hafa auraaparnir á Millagaskar þróað með sér óvenjulegt atferli. Þegar gullpeningum rignir niður úr allsnægtaþaki regnskógarins taka þeir nokkra upp og eyða þeim. En svo gerist það merkilega, þeir virðast hugsa með sér: Þarf ég meira? Þarf ég að eyða fleiri peningum til að lifa hamingjusömu lífi? Þarf ég þetta?

videoblocks-rays-and-beams-of-sun-light-shine-through-jungle-forest-canopy-at-sunny-day-peaceful-and-tranquil-scene-of-wild-tropical-nature-evergreen-rainforest-beautiful-landscape_somck8j-sl_th.png
Allsnægtaeyjan Millagaskar

Þegar þeir hafa eytt peningum eingöngu í það sem þeir telja að muni virkilega gera þá hamingjusamari taka þeir restina og stinga þeim niður í jörðina, svo úr verði ný peningatré. Svo þú sérð að allsnægtaskógurinn í kringum þessa auraapa er þeirra eigin sköpun. Það eru þeir sjálfir sem stuðla að tilvist hans og hann launar þeim ríkulega fyrir.

Lengi vel hélt ég að Millagaskar væri goðsögn ein. En svo fann ég hana. Og ég skal sýna þér leiðina, svo þú megir komast í órafjarlægð frá brjálæði kulapa og bálapa. Það er aðeins eitt sem þú þarf að gera til að rata rétta leið. Þú þarft að spyrja þig: Þarf ég meira?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s