Oftar en einu sinni hef ég heyrt eða lesið þessa alhæfingu: ,,Þessir Kínverkjar kunna ekkert að keyra á Íslandi!“ Ég velti því fyrir mér hvaða rök liggja að baki slíkri alhæfingu. Getur verið að allir Kínverjar, sem telja a.m.k. 1,4 milljarð manna (um 4 þúsund sinnum fleiri en Íslendingar) séu allir ömurlegir að keyra á Íslandi? Þessi alhæfing byggist á fordómum. Ég gæti til dæmis alhæft að allir Íslendingar séu frábærir ökumenn. En það þarf ekki að leita lengra en á facebook til að sjá að mjög margir Íslendingar kunna ekki einu sinni að leggja. Kannski eru Íslendingar og Kínverjar líkari en í fyrstu mætti halda?

Ég las nýlega bókina Factfulness eftir Hans Rosling. Þessi bók var mjög áhugaverð og breytti viðhorfi mínu á heimsmynd framtíðarinnar. Sé bókin tekin saman í fáum orðum segir hún: Já, það er margt slæmt í heiminum, en sömuleiðis er margt að verða betra. Til dæmis fara fátækt og ungbarnadauði minnkandi. Heimurinn er ekki eins dramatískur og hann virðist í fyrstu og talnagögn geta verið góð sálfræðimeðferð þegar allt virðist vera að fara til helvítis.

Tökum ungbarnadauða sem dæmi. Hans Rosling segir tíðni ungbarnadauða vera mjög góðan mælikvarða á velmegun ríkja. Ungabörn eru viðkvæm og þegar tíðni ungbarnadauða lækkar er það merki um að þau fái nægan mat, hreint drykkjarvatn og aðgang að heilbrigðisþjónustu. Til þess þarf góða innviði, menntað fólk (t.d. ljósmæður) og almennt séð gott og vel virkandi samfélag. Á síðunni gapminder.org, sem Hans Rosling tók þátt í að byggja upp, má leika sér með ýmis talnagögn. Hér fyrir neðan má sjá hvernig tíðni ungbarnadauða á Íslandi og í Kína hefur þróast síðustu 2 aldir, samkvæmt gögnum á gapminder.org:

ungbarnadauði

Í báðum ríkjum fer tíðni ungbarnadauða snarlækkandi og það virðist vera þróun sem á sér stað um allan heim. Hans Rosling segir: ,,4,2 milljónir barna (5 ára eða yngri) dóu árið 2016. Árið á undan dóu 4,4 milljónir barna. Árið á undan því dóu 4,5 milljónir. Árið 1950 dóu 14,4 milljónir barna. Það eru næstum 10 milljón fleiri börn en í dag.“

Óhjákvæmilega hafa bætt lífsskilyrði leitt af sér gífurlega fjölgun mannkyns og teljum við nú yfir 7 milljarða. Hans Rosling leggur fram spurningu sem 70% aðspurðra (þar á meðal ég) svara ekki rétt í fyrstu tilraun. Spurningin er: Hvaða kort á myndinni fyrir neðan sýnir best hvar þessir sjö milljarðar manna búa? Er það A, B eða C? Svaraðu fyrir sjálfa/n þig áður en þú lest áfram.

mannfjöldi_spurning

Ertu kominn með svar? Í framhaldi af þessari spurningu spyr Hans Rosling einnig: ,,Ef þér er virkilega annt um sjálfbæra framtíð, arðrán náttúrulegra auðlinda jarðar eða heimsmarkaðsmál, hvernig áttu efni á því að týna milljarði manna?

mannfjoldi_2015

Rétta svarið er A (mynd fyrir ofan). Langstærsti hluti mannkyns býr í Asíu en fólki hættir til að týna milljarði hér og þar. Ef þú ert skynsamur fjárfestir vilt þú væntanlega eiga skýrari mynd af heimskortinu í huganum. Af hverju er það mikilvægt? Hvernig gagnast okkur að vita að langflestir jarðarbúar eru í Asíu? Það eina sem þeir gera er að vera langt í burtu og tala kjánamál og borða hrísgrjón, ekki satt? Þeir sem svo villast hingað til lands keyra allir beint út í skurð. Eigum við ekki bara að hunsa asíubúa og einbeita okkur að Bandaríkjamönnum og evrópubúum sem eiga alvöru pening?

Svarið er nei og Hans Rosling segir okkur af hverju: ,,Sé spá Sameinuðu þjóðanna rétt og tekjur í Afríku og Asíu munu halda áfram að aukast eins og þær gera nú þegar, þá mun þungamiðja heimsmarkaðsins færast frá Atlantshafinu yfir til Indlandshafs á næstu 20 árum. Fólk sem býr í ríkum löndum í kringum Norður-Atlantshaf eru aðeins 11% jarðarbúa en eru fulltrúar 60% af tekjuhæsta fjórðungi þeirra. Árið 2027 mun þessi tala hafa dregist niður í 50% ef tekjur jarðarbúa halda áfram að þróast eins og þær gera í dag. Árið 2040 munu 60% af tekjuhæsta fjórðungi jarðarbúa vera fyrir utan ,,Vestrið“. Já, ég held að tími Vestrænna yfirburða muni brátt líða undir lok.“

Hér má sjá mynd byggða á gögnum frá gapminder.org sem sýnir þessa þróun tekna sem Hans Rosling vísar til, hér er samanburður á þróun tekna á Íslandi og í Kína:

tekjur

Þegar þessi þróun tekna er skoðuð í samhengi við mannfjöldaspá fyrir árið 2100 er ljóst að við erum að horfa á mjög breytta heimsmynd á þessari öld:

mannfjoldi_2100

Hér má sjá að undir lok aldarinnar má búast við að fimm milljarðar manna muni búa í Asíu, þrír í Afríku, á meðan lítil fjölgun mun eiga sér stað í Ameríku og Evrópu. Í Asíu verður meirihluti neytendamarkaðsins, svo ég vitni áfram í Hans Rosling: ,,Ef þú vinnur fyrir fyrirtæki sem byggir starfsemi sína á gamla ,,Vestrinu“ eru líklega að missa af tækifærum sem liggja í stærstu uppsveiflu miðstéttarneyslu í veraldarsögunni, sem á sér núna stað í Afríku og Asíu. Staðbundin fyrirtæki þar eru að skapa sér fótfestu, vörumerkjavitund og dreifa sér út um þessar álfur, á meðan þið eruð ennþá að átta ykkur á því sem er að gerast. Hin vestræna neyslumenning var aðeins forrétturinn á undan því sem koma skal.“

shanghai-tower-china-tallest-building-skyscraper-gensler-designboom-02.jpg
Sjanghæ, ein af perlum viðskipta í Kína

Af hverju keyra Kínverjar út í skurði á Íslandi? Það getur verið að margir þeirra séu einfaldlega lélegir ökumenn. Svo getur hitt verið að við höfum ekki kynnt okkur bakgrunn þeirra og menningu nægilega vel. Aðgengi þeirra að upplýsingum er ef til vill lélegra, samanborið við enskumælandi ferðamenn, svo þeir fá færri tækifæri til að kynna sér aðstæður. Sem er slæmt, því við viljum að þessi hratt vaxandi neytendahópur fái góða upplifun af Íslandi. Kasti ég fram mínum eigin fordómum gæti ég jafnvel sagt að kannski séu Íslendingar ekki búnir að byggja upp nógu öflugt samgöngukerfi fyrir ferðamenn á Íslandi?

Annað get ég sagt sem eru ekki fordómar. Kínverjar eru að byggja upp öflugt samgöngukerfi. Hið svokallaða Belti og braut verkefni, einnig þekkt sem Nýi Silkivegurinn, er ein umfangsmesta innviðauppbygging mannkynssögunnar með áætlaðan kostnað á bilinu 4-8 billjón bandaríkjadali. Kínverjar eru búnir að vinna heimavinnuna sína og sjá greinilega í hvað stefnir. Þeir ætla sér með þessu að tengja Kína betur við fleiri en 68 lönd, eða 60% jarðarbúa, mörg hver þar sem millistéttarfólki fer hratt fjölgandi.

AEC-Focus-Marsh-w
Silkivegur 21.aldarinnar

En hvað með það? Kínverjar kunna ekkert að keyra.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s