,,Sá auður sem náttúran krefst er smár og auðvelt að eignast, en sá auður sem þarf til að verða við hégómlegum hugsjónum nær út í hið óendanlega.“

-Epicurus-

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu var miðgildi eigna Íslendinga um 7,5 milljónir árið 2016. Með öðrum orðum: Ef þú hittir Íslending á götu úti árið 2016 og ættir að giska á hvað hann ætti mikinn pening umfram skuldir, þá væri 7,5 milljónir nokkuð gott gisk.

Skoðum núna Bill Gates. Samkvæmt wikipedia var eigið fé Bill Gates í nóvember 2018 áætlað 95,6 milljarðar bandaríkjadalir. Miðað við gengi í janúar 2019 er það 11.529.203.092.647 íslenskar krónur eða 11 billjón krónur.

Hvað þýðir þetta fyrir Bill Gates? Sé ríkt fólk hamingjusamara ætti Bill Gates að vakna hlæjandi hvern einasta morgun og dansa í gegnum daginn.

En ætli það sé raunin? Þrátt fyrir stjarnfræðilegan mun á hreinni eign Íslendings og Bill Gates er ég nokkuð viss um að sneiðmyndataka af heilum þeirra væri ósköp svipuð að sjá. Jafnvel þó Bill Gates ætti 20, 30 eða 40 billjónir verður heilinn alltaf takmarkandi þáttur þegar kemur að hamingju hans.

Bókin Your Money and your Brain eftir Jason Zweig kafar dýpra ofan í þetta samband peninga og hamingju. Bókin vitnar í margar áhugaverðar rannsóknir og segir meðal annars:

,,Eru þeir ríku mikið hamingjusamari heldur en þau okkar sem eru nógu heppin til að vera yfir fátæktarmörkum? Það kemur á óvart að svarið er nei. Árum saman hafa sálfræðingar lagt stöðluð próf fyrir fólk um allan heim og spurt: Þegar allt er tekið saman myndir þú segja að þú sért mjög hamingjusamur, nokkuð hamingjusamur eða ekki mjög hamingjusamur? Yfirleitt eru svörin gefin á skala frá einum (alls ekki hamingjusamur) til sjö (gríðarlega hamingjusamur). Meðlimir Maasai þjóðflokksins, sem smala búfénaði á hrjóstrugum sléttum Keníu og Tansaníu, fá að meðaltali 5,7 á þessum skala. Inúítar, sem búa á köldum túndrum Norður-Grænlands, fá að meðaltali 5,8 á þessum skala. Þegar meðlimir Forbes 400, auðugustu menn Ameríku, tóku svipað próf var meðaltal þeirra 5,8.

Með öðrum orðum, að eiga gífurleg auðæfi í Ameríku, ásamt glæsivillum og bensum, einkakokki og þjálfara, lystisnekkjum og einkaþotum, gerir þig aðeins lítillega hamingjusamari en dæmigerðan Maasai smala sem drekkur mjólkurblandað kúablóð í kofa gerðum úr þurrkuðum skít.

Sannleikurinn er þá sá að peningar kaupa ekki hamingju. Þegar þú átt nóg til að verða við grunnþörfum þínum bæta meiri peningar minna við hamingju þína en þig grunar.“

cedarberg-campi-ya-kanzi-genuine-partnership-with-the-maasai-6
Hamingjusamur? Hann er ekki einu sinni með síma!

Jason Zweig segir félagslegan samanburð og öfund hafa mikið meira vægi þegar kemur að hamingju. Það skiptir ekki máli hversu mikla peninga þú átt sjálf/ur þegar sú upphæð stenst ekki samanburð við fólkið í kringum þig:

,,Um 5200 breskir launþegar voru beðnir um að meta hversu ánægðir þeir voru með störf sín og laun. Því minna sem þeir þénuðu samanborið við menn í sambærilegum störfum, þeim mun óánægðari voru þeir, jafnvel þegar um vel efnaða menn var að ræða. Með öðrum orðum, sá sem þénar aðeins meira en gengur og gerist fyrir starf sitt kann að vera hamingjusamari en sá sem þénar mjög ríkulega, að því gefnu að sá ríkari sé að þéna minna en samverkamenn sínir. Þetta virðist útskýra hvers vegna fólk í fátækari löndum er hamingjusamara en við er að búast. Þegar næstum allir sem þú þekkir eru álíka fátækir og þú sjálf/ur ertu ólíklegri til að þjást af samanburði við aðra.“

Jason Zweig segir samanburð við aðra eiga sér djúpar rætur og komi okkur oftar en ekki í ógöngur í nútíma samfélagi:

,,Rætur öfundar og félagslegs samanburðar eiga sér svo djúpar rætur að þær eru hluti af líffræðilegri uppbyggingu okkar. Félagslegur samanburður kom sér líklega vel í árdögum mannsins. Með því að fylgjast með þeim sem áttu meira lærðu forfeður okkar hvernig þeir sjálfir gátu eignast meira. Með því að öfunda og herma eftir þeim sem voru, til dæmis, bestir í að safna ávöxtum, gátu aðrir líka bætt hæfni sína til að safna ávöxtum. Í frumstæðum heimi hjálpaði öfund öllum að komast af.“

,,Smá vottur af öfund getur verið jákvæður drifkraftur en krónískur samanburður getur eyðilagt líf þitt. Hafir þú ekki hemil á þessari fornu hvöt til að bera árangur þinn saman við vini og kunningja mun hamingja þín alltaf vera háðari þeirra fjárhag en þínum eigin. Og það er eitthvað sem þú munt aldrei hafa neina stjórn á. Að vilja endalaust meira til að halda í við þá sem eiga meira dæmir milljónir manna til ævarandi óhamingju.“

-Your Money and your Brain-  eftir Jason Zweig

Það er gott að eiga nóg af peningum en það er til nóg af vondum ástæðum fyrir því að vilja meiri peninga. Meiri peningar geta aukið við hamingju þína, til dæmis þegar þeir gera þér kleift að verja meiri tíma með fjölskyldu og vinum, bregðast við óvæntum útgjöldum eða veita börnunum þínum uppbyggilegt og öruggt umhverfi. Peningar munu ekki auka við hamingju þína ef þú telur þig þurfa meira til að vinna alla sem þú þekkir á facebook og instagram.

Það er eðlilegt að bera sig saman við aðra. Öfund er eðlileg mannleg tilfinning rétt eins og reiði eða græðgi. Stundum eru þessar tilfinningar gagnlegar og hvetja okkur til aðgerða. En í dag gera þessar tilfinningar ekki sama gagn og áður. Þær eru eins og stýriforrit sem er ekki búið að uppfæra fyrir 21.öldina, svo það eru engar skipanir um að stöðva. Sjáðu fyrir þér tilfinninguna græðgi. Sjáðu fyrir þér einhvern sem liggur í sófanum með snakkpoka. Heili viðkomandi er ekki með neina stoppskipun og umbunar þessa hegðun með gleðihormónum. Heilinn er ánægður með allan þennan orkusparnað og innstreymi salts og fitu. ,,Mjög gott hjá þér haltu þessu áfram!“ 

Við vitum að of mikið af þessari hegðun er rökleysa. Haldi viðkomandi áfram verður hann of þungur, fær æðakölkun og aðra lífsstílssjúkdóma. Endalaus samanburður er sambærilegt úrelt stýriforrit. Það er rökleysa í nútímasamfélagi allsnægta. Að leyfa sér að sökkva sér í öfund og samanburð á samfélagsmiðlum verður eins og snakk fyrir sálina. Að mestu innantómt loft sem veitir enga fyllingu, enga næringu fyrir andann. Þú ferð að eyða peningum til að hellast ekki úr draumalestinni og vinna of mikið til að eiga fyrir sálarsnakki og gosfroðu á facebook.

Mundu að það á eftir að uppfæra hugbúnaðinn. Samanburður er error.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s