
Sagan segir að þegar Henry David Thoreau sat í steininum, fyrir að hafa neitað að borga skatta, hafi hann fengið heimsókn frá vini sínum Ralph Waldo sem spurði í undran: ,,Henry hvað ertu að gera hérna inni?“ Henry David átti þá að hafa svarað: ,,Ralph hvað ert þú að gera þarna úti?“
Henry David stóð í borgaralegri óhlýðni og það sem hann átti við með spurningu sinni var í raun af hverju í ósköpunum Ralph vinur hans væri meðlimur í samfélagi sem notaði skattfé til að fjármagna þrælahald og stríðsrekstur? Henry David mótmælti með eina vopninu sem var nógu beitt til að blóðga valdhafa. Hann hætti að borga. Og var kastað í steininn.
Hefur þú hlustað á umræðu um ofurlaun bankaforstjóra undanfarna daga? Ertu svolítið hneykslaður? Reið? Pirraður? Döpur? Finnur þú fyrir óréttlæti?
,,Hvað ert þú að gera þarna úti?“
Hvað ef ég segði þér að þú getur mótmælt? Þú átt beitt vopn. Þú getur staðið fyrir þinni eigin borgaralegu óhlýðni. Þú getur hætt að borga. Og ekki nóg með það því þú munt græða peninga á því. Og enginn mun kasta þér í steininn.
Þegar ég segi að þú getur hætt að borga á ég ekki við að þú hættir að borga af lánunum þínum eða brjótir lögin. Og með mótmælum á ég ekki við að þú stormir inn í næsta banka og hrópir óorðum að því góða og duglega fólki sem þar vinnur.
Þú getur hætt að borga með því að gefa bankanum einmitt það sem hann vill: Peninga. Þú borgar niður lánin þín með bros á vör. Og hættir að borga vexti. Þú græðir, þeir tapa. Sjáðu bankaforstjórana útskýra launahækkanir sínar þegar afkoman versnar. Ég heyri orðin sem þú segir, forstjóri, en ég trúi ekki augunum þínum. Þú stendur nakinn og vantar ný föt.
Jafnvel áhrifaríkari leið til að sýna borgaralega óhlýðni og mótmæla er að mynda skjaldborg. Hin raunverulega skjaldborg heimilanna er mynduð úr tveimur orðum: Nei. Takk.
,,Nei takk, ég vil ekki kreditkortið ykkar.“
,,Nei takk, ég vil ekki bílalánið ykkar.“
,,Nei takk, ég vil ekki frístundalánið, skammtímalánið eða tölvulánið ykkar.“
