Nytjamarkaðir eru eins og grafhýsi fyrir dauða drauma. Þar má finna allt milli himins og jarðar. Þreytta sófa, rykfallin glös, yfirgefin leikföng og gleymd slúðurblöð. Hlutur sem einhver tók upp úr pakka um jólin, safnaði fyrir í sumarvinnu eða gat ekki staðist í Kringlunni, fyrir löngu síðan. Hlutur sem einhver út í heimi stritaði við að smíða eða prenta eða móta. Einu sinni fluttur yfir hafið í traustri pakkningu og stóð glansandi og fallegur í búðarglugga. Núna gleymdur og afskrifaður. Hættur að glansa og hættur að vekja upp hrifningu og spennu. Dottið úr tísku. ,,Losa sig við þetta gamla drasl.“

Það var í einu slíku draumagrafhýsi sem ég fann falinn fjársjóð. Það er ágætis afþreying að gramsa í gömlu bókunum á nytjamörkuðum. Stundum finnur maður fjársjóð sem heldur manni uppteknum næstu daga eða vikur. Nú síðast fann ég gamla klassík, Jurassic Park eftir Michael Crichton. Ég gleypti hana í mig og leið eins og krakka á nýjan leik sem ber óttablandna virðingu fyrir risaeðlum og ógnarafli vísindanna.

Og hvað kostaði þessi afþreying mig? 100 krónur! Fyrir margar klukkustundir af fínustu skemmtun. Ný bók, eftir heitasta höfundinn og pökkuð inn í glansandi plast, kostar hvað? Þrjú, fjögur, fimm þúsund krónur?

Annað eins með nýjar bíómyndir. 2500 krónur fyrir miða og nammi ,,tilboð“. Við látum okkur hafa það því við elskum að troða í okkur poppi á meðan við horfum á testosterón þrútinn Chris Hemsworth græða 30 milljón dali fyrir að lemja Hulk með hamri í nýjustu og bestu Avengers myndinni (sem er eins og allar hinar).

Og þetta eru bara litlu hlutirnir. Nýjasta tískan fær okkur til að stökkva ofan í fjárhagslegan hákarlapytt til að næla okkur í nýjasta Volvo-inn, nýjasta iPhone-inn og nýjasta Omaggio vasann. Eitt augnablik föllum við í hópinn en á morgun er glansinn horfinn þegar allir eru komnir með nýrri Volvo, nýrri iPhone og Omaggio vasa með bláum röndum í stað gylltra. Samstundis höfum við gleymt ,,gamla draslinu“ og stritinu sem fylgdi því að eignast þessa hluti.

Ég er ekki að segja að fólk eigi ekki að kaupa nýja hluti. Ég er að segja að fólk þarf ekki að skipta um bíla, snjallsíma og húsgögn eins og nærbuxur. Sá sem er haldinn tískufíkn á erfitt með hamingjuna, endalaust kvalinn af óuppfylltri þrá.

Íslendingar, eins og aðrar vestrænar þjóðir, hafa erft afrakstur áratuga erfiðis í tækniþróun, uppbyggingu innviða og öflun þekkingar. Afleiðingin er meiri hagsæld en hefur þekkst nokkurn tíma áður. Við erum í raun viðbjóðslega rík. En eins og dekrað barn sem erfir auðæfi án þess að hafa unnið fyrir þeim sjálft er okkur hætt við að kunna ekki að meta allan þennan auð sem fyrri kynslóðir hafa skapað. Við viljum nýtt og spennandi.

Ég fann gullmola í Jurassic Park þar sem stærðfræðingurinn Ian Malcom kafar dýpra ofan í þetta:

,,Vald vísinda er eins og að erfa auð: fenginn án aga. Þú lest um hvað aðrir hafa gert og tekur næsta skref. Þú getur gert það ungur að aldri. Þú getur náð skjótum árangri. Það krefst ekki áratuga aga, engrar leikni. Eldri vísindamenn eru hunsaðir. Það er engin auðmýkt gagnvart náttúrunni. Það er aðeins heimspeki skjótfengins gróða og frægðar. Svindla, ljúga, falsa, skiptir engu. Ekki fyrir þig eða kollega þína. Enginn mun gagnrýna þig. Enginn hefur staðla. Þeir eru allir að reyna það sama: gera eitthvað stórt og gera það hratt.“

,,Og vegna þess að þú stendur á öxlum risa getur þú náð skjótum árangri. Þú veist ekki nákvæmlega hverju þú áorkaðir en þú hefur nú þegar skrifað um það, fengið einkaleyfið og selt það. Og neytandinn er jafnvel agalausari en þú. Neytandinn kaupir einfaldlega valdið, eins og hverja aðra vöru.“

,,Þökk sé vísindum búa nú milljarðar manna í þessum litla heimi, í nátengdum þéttbýlum. En vísindin geta ekki hjálpað okkur að ákveða hvað skal gera við þennan heim, eða hvernig skal lifa lífinu. Vísindin geta skapað kjarnakljúf en geta ekki sagt okkur hvort það ætti að byggja hann. Vísindin geta skapað meindýraeitur en geta ekki sagt okkur hvort það ætti að nota það.“

Íslendingar standa nú frammi fyrir þessu vandamáli. Við höfum erft gífurleg auðæfi án aga. Eldri kynslóðir hafa byggt vegi, sjúkrahús, skóla og fyrirtæki. Hvað viljum við gera við þessa arfleifð? Auðæfi okkar geta borgað fyrir lúxusbíla en geta ekki sagt okkur hvort við ættum að gera það. Peningarnir okkar geta borgað fyrir nýjustu tísku en geta ekki sagt okkur hvort það fylli í tómið í sálinni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s