Eftirstöðvar: 6,9 milljónir

Enn einu sinni styttist í kosningar. Loforð eru gefin og mótframboð eru gagnrýnd. Englar í skítkasti. Skattar eru alltaf eitt stærsta hitamálið fyrir kosningar. Hvað eiga skattar að vera háir? Hvernig á að dreifa þeim? Hvernig á að nýta skattana?

Vinnandi fólk borgar stóran hluta tekna sinna í skatta. Sumir hugsa með sér: ,,Bara að ég væri ekki píndur af ríkinu til að borga alla þessa skatta! Ég gæti gert svo margt. Ég gæti farið til útlanda, ég gæti fengið mér nýja eldhúsinnréttingu, ég gæti keypt nýjan volvo!

Á meðan fólk hugsar um allt það sem það gæti gert ef ekki væri fyrir tekjuskatt gleymir það földu sköttunum, skattar sem ekki birtast á skattframtali. Ég borga þá stundum. Þú borgar þá stundum. Hinsvegar borgum við aldrei jafn hátt hlutfall af tekjum okkar í þessa földu skatta. Það mætti kalla þessa földu skatta tilfinningaskatta og það skrýtna  við þá er að við ákveðum sjálf hvað þeir eru háir og margir kjósa að skattleggja sig í botn.

Benjamin Franklin, forseti Bandaríkjanna 1785-1788, lýsti þessum sköttum ágætlega í bók sinni The Way to Wealth: ,,Skattarnir eru vissulega íþyngjandi, og ef við þyrftum eingöngu að borga skatta sem ríkisstjórnin leggur á okkur væri auðveldara fyrir okkur að afgreiða þá; en við borgum fleiri skatta og þeir eru mikið þyngri fyrir sum okkar. Við erum sköttuð tvöfalt meira fyrir aðgerðarleysi okkar, þrefalt meira fyrir stolt okkar, og fjórfalt meira fyrir hugsunarleysi. Skattstjórarnir geta ekki lagt þessa skatta af.“

Benjamin Franklin hittir naglann á höfuðið. Það er hægt að nefna fleiri dæmi til viðbótar um skatta sem við leggjum á okkur sjálf :

  • Græðgiskattur: Að stækka máltíð á skyndibitastað jafnvel þó þú verðir saddur/södd eftir venjulega stærð.
  • Stoltskattur: Að kaupa glænýjan bíl því vinnufélagar þínir eru allir á flottum og nýjum bílum, jafnvel þó gamla druslan sé fær um að ganga í nokkur ár til viðbótar.
  • Letiskattur: Að láta bóna bílinn jafnvel þó þú sért alveg fær um það sjálf/ur.

Í hugsunarleysi látum við tilfinningarnar stjórna okkur og tökum þá órökréttar ákvarðanir. Í flestum tilfellum leiða þessir tilfinningaskattar ekki til aukinnar hamingju okkar, rétt eins og venjulegir skattar. Í hagfræði er stundum notast við hugtakið umframbyrði eða allratap (deadweight loss) og má skilgreina sem óskilvirkni á framboði og eftirspurn á vöru. Skattar eru vel þekktir fyrir að orsaka slíka óskilvirkni og eins er það með tilfinningaskatta. Stutt skýring á wikipedia segir: ,,Með öðrum orðum kaupir fólk vöruna eða þjónustuna og hlýtur ekki ábata af eða kaupir ekki vöruna sem það hlyti ábata af.“

Íslendingar kaupa of oft vörur sem þeir ,,hljóta ekki ábata af“ ef að ábati er skilgreindur sem hamingja. Við eyðum of miklum peningum en hljótum litla eða enga hamingju í staðinn þegar við stækkum skyndibitamáltíðina, kaupum bíl sem við þurfum ekki til að ganga í augun á öðrum og látum bóna bílinn sem við gætum bónað sjálf.

Næst þegar þú skoðar hvað þú borgar í skatt skaltu líka muna hvað þú skattleggur sjálfan þig hátt. Íhugaðu hversu margar krónur fara í tilfinningaskatta sem eru órökréttir og gera lítið eða ekkert til að auka við hamingju okkar.

3 thoughts on “Baráttan við lánið #10

Færðu inn athugasemd